Steingrímur K. Hall (1877-1969)

Steingrímur K. Hall

Prófessor Steingrímur K. Hall er nafn sem flestum Íslendingum er gleymt og grafið í dag en hann var Vestur-Íslendingur sem fyrstur landa sinna menntaði sig í tónlistarfræðum og hélt uppi tónlistar- og menningarlífi Íslendinga í Winnipeg ásamt eiginkonu sinni. Hann var þar organisti, kórstjóri, hljómsveitarstjóri, píanóleikari, tónlistarkennari og tónskáld svo dæmi séu nefnd.

Steingrímur Kristján Jónasson Hall fæddist í Gimli í Manitoba í Kanada árið 1877, sonur íslenskra hjóna sem höfðu flutt vestur um haf en þau voru Þingeyingar, þriggja ára gamall flutti hann til Norður Dakota. Steingrímur varð fyrstur Íslendinga vorið 1899 til að ljúka námi í tónlistarfræðum á háskólastigi en þá útskrifaðist hann með BM-gráðu (bachelor of music) frá Gustafus Adolphus Conservatory St. Peter í Minneapolis og þá með hærri einkunn en nokkur annar til þessa. Við útskriftina var flutt óratoría sem hann hafði útsett fyrir sextíu manna hljómsveit en það var þá stærsta tónverk sem Íslendingur hafði komið að. Stefán sem iðulega var titlaður söngfræðingur nam frekari fræði í söng og píanófræðum næstu þrjú árin í Minneapolis og Chicago en tók svo við kennslu við fyrrgreindan skóla og gegndi þar prófessorastöðu um þriggja ára skeið.

Eftir það kenndi hann við ST. John‘s College í Winnipeg, kenndi á píanó, orgel og fiðlu auk söngs og tónfræði, og var einnig að sinna tónlistartengdum verkefnum fyrir Íslendingasamfélagið í borginni, kenndi Íslendingum söng, var organisti og stjórnaði Kór Fyrstu lútersku kirkju Íslendinga um þrjátíu ára skeið og hélt tónleika ásamt Sigríði Hall (áður Hördal) eiginkonu sinni (sem var söngkona) en þau hjónin voru burðarásar í tónlistarlífi Íslendinganna, eða eins og segir í einni heimildinni að þá voru þau lífið og sálin í tónlistarlífi Winnipeg í aldarfjórðung. Steingrímur átti auk þess þátt í stofnun og stjórnaði um fimm ára skeið íslenskum lúðraflokki í borginni, West Winnipeg Icelandic band en það var 30-40 manna hljómsveit, hann lék líklega sjálfur á klarinett í sveitinni en hann kom að stjórnun fleiri lúðrasveita á þessum slóðum. Steingrímur var einnig tónskáld og samdi nokkur einsöngslög sem voru flutt á tónleikum vestra og hafa einhver þeirra verið gefin út á plötum, sjálfur stóð hann fyrir útgáfu nótnahefta með íslenskum sönglögum fyrir íslenska samfélagið í Winnipeg og meðal laga voru þar nokkur eftir hann. Árið 1936 fluttu þau hjónin til Wynyard og þar annaðist Steingrímur einnig söngstjórn við íslenskan kór um langt skeið.

Steingrímur K. Hall lést í hárri elli árið 1969, níutíu og tveggja ára gamall en hann kom aldrei til Íslands.