Steingrímur Sigfússon (1919-76)

Steingrímur Sigfússon

Spor Steingríms Sigfússonar tónskálds liggja víða en hann var einnig organisti, kórstjórnandi og tónlistarkennari víða um land.

Steingrímur Matthías Sigfússon fæddist á bænum Hvalsá norður í Hrútafirði og ólst upp þar í sveit en hann var tekinn þriggja ára í fóstur þegar faðir hans veiktist. Á fósturheimilinu komst hann fyrst í kynni við tónlist og lærði þá á píanó, og síðar einnig á orgel þar sem hann var við nám í Reykjaskóla en hann þótti einnig góður söngmaður.

Um tvítugt flutti Steingrímur vestur á Patreksfjörð og þar átti hann eftir að búa og starfa með stóra fjölskyldu, hann stjórnaði þar kirkjukór Patreksfjarðar og var þar einnig organisti og á þeim árum nam hann einnig málaraiðn og starfaði við það jafnframt – þá þótti hann jafnframt liðtækur listmálari og teiknari.

Á Patreksfjarðar árum sínum varð hann nokkuð áberandi sem lagasmiður, hann hafði reyndar sett saman lög síðan á unglingsárunum en um miðja öldina þegar danslagakeppnir SKT fóru af stað sendi hann iðulega lög í keppnina og vann til fjölmargra verðlauna í þeim næstu árin en hann orti einnig texta við nokkur laga sinna. Sum þessara laga komu út á plötum á sjötta áratugnum en þeirra þekktast er án nokkurs vafa Síldarvalsinn (Syngjandi sæll og glaður) sem Sigurður Ólafsson söng inn á plötu. Meðal annarra laga eftir Steingrím má nefna Mikið var gaman að því, Til þín, Nóttin og þú, Dansinn er draumur, Farin, Haustkvöld og Litla stúlkan en sem fyrr segir komu sum þeirra út á plötum og hafa jafnvel komið út með mörgum mismunandi flytjendum. Síðar átti hann eftir að semja einnig kirkjuleg verk, sálma, orgel- og kórverk sem voru stundum flutt í útvarpi – jafnvel af honum sjálfum, þá hélt hann að minnsta kosti einu sinni orgeltónleika í Dómkirkjunni í Reykjavík.

Í tengslum við danslagakeppnir SKT kom Steingrímur stundum til Reykjavíkur til að veita verðlaunum viðtöku en þá kom fyrir að hann tróð upp sem gestur með danshljómsveitum og lék hann þá líklega á harmonikku, hann mun jafnframt eitthvað hafa leikið fyrir dansi með hljómsveitum fyrir vestan.

Steingrímur árið 1961

Steingrímur var eins og sjá má hér að ofan fjölhæfur listamaður en hann þótti einnig ágætur rithöfundur og nokkrar smásögur og unglingasögur komu út eftir hann undir dulnefninu Valur Vestan, þar var um að ræða spennusögur fyrir unglinga sem seldust fljótt upp en voru svo endurútgefnar á nýrri öld. Hann var jafnframt virkur greinahöfundur og tugir blaðagreina birtust eftir hann í dagblöðum og tímaritum en efni þeirra tengdist oftar en ekki tónlistarmálum.

Steingrímur flutti frá Patreksfirði í upphafi sjöunda áratugarins og á næstu árum og áratugum kom hann nokkuð víða við sem organisti og kórstjóri en hann kenndi þá einnig tónlist, málningarvinnan tók svo við yfir sumartímann. Hann var um tíma í Vestmannaeyjum og var þar skólastjóri tónlistarskólans og virðist hafa farið þaðan til Reykjavíkur þar sem hann varð fyrsti organisti og kórstjóri við Áskirkju áður en hann fluttist austur á Hvolsvöll þar sem hann stýrði Tónlistarskóla Rangæinga, þá var hann um tíma á Þingeyri þar sem hann m.a. stjórnaði kirkjukórnum og kenndi söng áður en hann fluttist austur á Fáskrúðsfjörð þar sem hann bjó og starfaði í þrjú ár, átti þar þátt í stofnun tónlistarfélags og blandaðs kórs sem hann stjórnaði, þar var hann einnig skólastjóri tónlistarskólans. Haustið 1971 fluttist Steingrímur norður til Húsavíkur og gegndi þar svipuðum hlutverkum og á fyrri stöðum, hann var þar skólastjóri tónlistarskólans, organisti og stjórnandi kirkjukórsins á staðnum.

Á Húsavík fór heilsu hans mjög að hraka og svo fór að hann lést vorið 1976 eftir nokkur veikindi rétt tæplega fimmtíu og sjö ára gamall. Ári fyrr hafði hann gefið út fyrsta nótnaheftið með lögum sínum og voru þá fleiri væntanleg, hins vegar er óljóst hvort þau komu einhverju sinni út.

Lög Steingríms er víða að finna á útgefnum plötum sem fyrr er getið en ekki liggur fyrir hversu mörg lög hann samdi um ævina, og árið 2009 kom út plata með úrvali laga Steingríms og bræðra hans, Lárusar og Haraldar Sigfúsarsona sem einnig þóttu liðtækir lagasmiðir. Á þeirri plötu sem ber titilinn Dagdraumar: Strandaperlur Sigfúsarbræðra frá Stóru-Hvalsá Steingríms, Lárusar og Haraldar, er að finna fimmtán lög eftir þá bræður.

Efni á plötum