Samkór Vestmannaeyja [2] (1963-80)

Samkór Vestmannaeyja ásamt Marteini H. Friðrikssyni

Tveir tengdir kórar hafa starfað í Vestmannaeyjum undir nafninu Samkór Vestmannaeyja, færa mætti rök fyrir því að um sama kór sé að ræða en hér miðast við að um tvo kóra sé að ræða enda liðu fimmtán ár frá því að hinn fyrri hætti og hinn síðari tók til starfa.

Samkór Vestmannaeyja hinn fyrri var stofnaður í nóvember 1963 upp úr blönduðum kór sem hafði orðið til út frá Karlakór Vestmannaeyja. Kórstarfið var afar laust í reipunum í upphafi en Steingrímur Sigfússon var fyrstur stjórnenda hans, Reynir Guðsteinsson tók við af honum fljótlega en hætti vorið 1964 og því lagðist kórinn í dvala um sumarið án þess að vitað yrði hvort hann tæki aftur til starfa að hausti.

Um haustið gerðust þau tíðindi að Austur-Þjóðverjinn Martin Hunger (síðar Marteinn H. Friðriksson) var ráðinn til starfa sem skólastjóri tónlistarskólans í Vestmannaeyjum, og það varð svo úr að hann tók einnig við stjórn kórsins og þar með var framtíð hans tryggð.

Samkór Vestmannaeyja varð fljótt öflugur kór undir stjórn Marteins en hann innleiddi ferskar hugmyndir í kórstarfið, t.d. lagði hann áherslu á að kenna þeim meðlimum kórsins nótnalestur sem ekki lásu nótur. Kórinn gekk fljótlega í Landssamband blandaðra kóra og varð öflugur næstu árin í tónleikahaldi bæði í Vestmannaeyjum og uppi á landi, fastir liðir í því tónleikahaldi voru m.a. vor- og jólatónleikar.

Samkór Vestmannaeyja 1976

Þegar Marteinn hætti störfum í Eyjum árið 1970 tók Guðmundur H. Guðjónsson við starfi hans sem skólastjóri tónlistarskólans og um leið við kórstjórninni en hann stjórnaði kórnum í eitt ár áður en Nanna Egilsdóttir kom til sögunnar. Undir stjórn Nönnu jókst hróður kórsins enn frekar, og líklega reis starfið hæst undir hennar stjórn þegar kórinn setti óperettuna Meyjaskemmuna e. Schubert á svið í Eyjum við miklar vinsældir um jólin 1971 en sýningin gekk fyrir fullu húsi í ellefu skipti og tvisvar vorið eftir. Þá fór kórinn með sýninguna til Færeyja og vakti þar mikla almenna athygli enda var það í fyrsta sinn sem óperetta var sett á svið í Færeyjum.

Þá um haustið (1972) hófust æfingar á annarri óperettu, Nótt í Feneyjum e. Strauss en aldrei tókst að koma þeirri sýningu á svið þar sem náttúruöflin tóku í taumana í Vestmannaeyjum þegar eldgos hófst þar í janúar 1973. Kórstarfið féll því niður eðli máli samkvæmt næstu mánuðina og reyndar fór svo að hús Nönnu og eiginmanns hennar eyðilagðist í gosinu og hún kom ekki aftur til starfa eftir gos. Við kefli hennar tók hins vegar Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) og enn voru Eyjamenn heppnir með stjórnanda, kórinn tók til starfa aftur um haustið 1974 eftir um eins og hálfs árs hlé og eftir að fyrstu tónleikarnir undir hans stjórn voru haldnir um vorið 1975 fékk kórinn mikinn meðbyr og í kjölfarið tók við tónleikaferð upp á land.

Samkór Vestmannaeyja við sjónvarpsupptöku 1977

Samkór Vestmannaeyja var öflugur sem fyrr og hélt fjölda tónleika næstu árin, árið 1977 var svo komið að því að Sigurður Rúnar fór með kórinn í Hljóðrita í Hafnarfirði þar sem tíu laga plata var hljóðrituð á fáeinum dögum, flest laganna voru með hljóðfæraleik þar sem stjórnandinn sjálfur lék á flest hljóðfæranna. Platan kom svo út snemma sumars undir nafninu Heima og hlaut þokkalega athygli.

Um það leyti sem platan kom út hætti Sigurður Rúnar með kórinn og upp frá því komst losarabragur á starfið. Sigursveinn D. Kristinsson stjórnaði kórnum um tíma, líklega veturinn 1977-78 en eftir það virðist sem svo að enginn hafi stjórnað honum. Eitthvert líf var í kórnum í upphafi árs 1980 en svo lognaðist starfsemin alveg útaf og þar með var sögu Samkórs Vestmannaeyja hins fyrri lokið.

Efni á plötum