Afmælisbörn 22. júlí 2021

Sigríður Eyþórsdóttir

Fimm afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar að þessu sinni:

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson tónlistarmaður er sextíu og sex ára gamall í dag. Hann starfrækir útgáfufyrirtækið Dimmu sem hann stofnaði ásamt Önnu Pálínu Árnadóttur eiginkonu sinni (d. 2004), en þau gáfu út fjölda platna saman og í sitt hvoru lagi undir merkinu. Aðalsteinn hefur einnig unnið mikið með fyrrum félögum sínum úr Vísnavinum og Hálfu í hvoru, s.s. Eyjólfi Kristjánssyni, Gísla Helgasyni og Bergþóru Árnadóttur. Aðalsteinn hefur einnig samið fjöldann allan af textum og ljóðum fyrir annað tónlistarfólk.

Sigríður Eyþórsdóttir tónlistarkona á stórafmæli en hún er fertug á þessum degi. Hún hefur sungið inn á fjölda platna, m.a. hjá Ellenu Kristjánsdóttur móður sinni og hefur jafnframt starfað með systrum sínum í Sísí Ey og hljómsveitum eins og Santiago, Tripola og Pikknikk sem sumar hverjar hafa notið vinsælda.

Steindór (Gísli) Hjörleifsson leikari átti afmæli á þessum degi en hann fæddist 1926 og lést árið 2012. Steindór var auðvitað fyrst og fremst leikari og þekktastur fyrir það en söng einnig þá klassísku útgáfu sem allir þekkja af laginu Einu sinnig á ágústkvöldi sem kom út fyrst árið 1960 á plötu með lögum úr Deleríum búbónis, á sömu plötu er að finna lagið Ástardúett sem hann söng ásamt Sigríði Hagalín. Annars má heyra rödd hans á nokkrum leikhústengdum hljómplötum.

Birgir Helgason átti jafnframt þennan afmælisdag en þessi kórstjórnandi frá Akureyri lést árið 2019. Birgir (f. 1934) var allt í öllu sem stjórnandi Kórs Barnaskóla Akureyrar lengi vel en þeim kór stjórnaði hann í nærri fjóra áratugi og gaf út nokkrar plötur með honum. Hann samdi einnig fjölda laga sem komið hafa út á plötum og nótnabókum, og árið 1981 kom út plata með lögum hans en hún ber titilinn Í kvöldró.

Þá hefði flautuleikarinn Manuela Wiesler einnig átt afmæli á þessum degi en hún lést árið 2006. Manuela var austurrísk en fæddist í Brasilíu (1955), nam flautuleik í Vín og víðar í Evrópu en fluttist hingað til lands 1973 og starfaði hérlendis í ríflega áratug. Hún sendi frá sér nokkrar plötur meðan hún bjó hér á landi, auk platna ásamt Helgu Ingólfsdóttur, hún lék ennfremur inn á nokkrar plötur með ýmsum listamönnum s.s. Guðmundi Árnasyni, Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar, Sigríði Ellu Magnúsdóttur og Pónik svo dæmi séu nefnd.

Vissir þú að hljómsveitin Ham lék á sínum fyrstu tónleikum í Tunglinu, sama kvöld og Sálin hans Jóns míns gerði slíkt hið sama?