Musica antiqua [félagsskapur] (1981-2002)

Musica antiqua 1996

Musica Antiqua sem starfaði um tveggja áratuga skeið fyrir og um aldamótin síðustu, var tónlistartengdur félagsskapur og gegndi margs konar margþættu hlutverki.

Musica Antiqua var stofnaður haustið 1981 og voru þau Snorri Örn Snorrason lútuleikari, Ólöf Sesselja Óskarsdóttir víólu da gamba leikari, Camilla Söderberg blokkflautuleikari og Helga Ingólfsdóttir semballeikari stofnendur hópsins sem gegndi margs konar hlutverki sem flytjendur tónlistar fyrri aldar eins og nafnið gefur til kynna, einnig héldu þau utan um tónleikaröð undir sömu yfirskrift, stóðu fyrir komu erlends tónlistarfólks, námskeiðahaldi og fleira. Fjölbreytileg endurreisnar- og barokktónlist var sérhæfing hópsins og reynt var að nota sem upprunalegust hljóðfæri við flutning tónlistarinnar, segja má að heimavöllur hópsins hafi framan af verið salur Menntaskólans í Reykjavík en þar kom hann oft fram.

Fleiri komu við sögu Musica Antiqua og ekki var hann fastskipaður fólki, Snorri, Ólöf og Camilla voru þó meðlimir alla tíð og hófu þau að starfa sem tríó undir nafninu einnig árið 1984 og gerðu um tíma, en síðar komu aðrir inn og fóru eins og gengur og gerist en Sverrir Guðjónsson kontratenórsöngvari varð fastur meðlimur hópsins frá 1993.

Musica Antiqua hélt fjölda tónleika, mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu en einnig úti á landsbyggðinni og reyndar erlendis, víða um Evrópu. Frá haustinu 1995 stóð félagsskapurinn fyrir árlegri tónlistarhátíð sem bar heitið Norðurljós, og allt þar til hann hætti störfum á fyrri hluta árs 2002.

Haustið 1996 gaf Musica Antiqua út plötuna Amor á vegum Ísdiska (útgáfufélags FÍH) og hafði hún að geyma veraldlega tónlist frá endurreisnar- og barokktímanum, fjögur hundruð ára popp eins og það var orðað. Amor hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu og DV.

Efni á plötum