Helgi E. Kristjánsson (1946-2016)

Helgi E. Kristjánsson

Tónlistarmaðurinn Helgi E. Kristjánsson var einn þeirra sem kom að flestum hliðum tónlistarmarkaðarins, hann var fyrst og fremst hljóðfæraleikari en fékkst við laga- og textasmíðar, útsetningar, upptökur, útgáfu, tónlistarkennslu, skólastjórnun, kórstjórnun og hvaðeina sem snýr að tónlistarflutningi. Helgi var vel þekktur meðal tónlistarfólks en líklega minna þekktur meðal almennings þrátt fyrir að leika með fjölda þekktra hljómsveita og koma við sögu á fjölmörgum útgefnum plötum um ævina.

Helgi Eiríkur Kristjánsson var fæddur í Reykjavík sumarið 1946 og mun hafa lært ungur á bassa og gítar, bassinn var hans aðal hljóðfæri lengst af en hann lék á fjölda annarra hljóðfæra einnig – hér má nefna banjó, mandólín, harmonikku og flautu svo aðeins fáein séu nefnd. Ekki liggja fyrir upplýsingar um unglingahljómsveitir sem Helgi starfaði með en haustið 1965 hóf hann að leika á bassa með nýstofnuðum Sextett Ólafs Gauks en hann átti eftir að leika með þeirri sveit í um tvö ár eða þar til Rúnar Gunnarsson tók við af honum. Í kjölfarið starfaði hann með fjölmörgum sveitum næstu misserin, Hryntríóinu, Hljómsveit Hauks Morthens og svo Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar en þess á milli lék hann um skemmri tíma með hljómsveitum manna eins og Guðmundar Ingólfssonar og Þóris Baldurssonar í verkefnum tengdum sjónvarpsþáttum, plötuútgáfu o.fl., hér má einnig nefna Hljómsveit FÍH undir stjórn Magnúsar Ingimarssonar á plötunni Skaup ´73.

Helgi hafði þá þegar leikið inn á fjölmargar útgefnar hljómplötur allt frá árinu 1967 þegar hann lék með Sextett Ólafs Gauks á smáskífu, í kjölfarið höfðu fylgt plötur með Elly Vilhjálms, Sverri Guðjónssyni & Hauki Þórðarsyni, Guðjóni Matthíassyni, Ragnari Bjarnasyni, Reyni Jónassyni, Vilhjálmi Vilhjálmssyni og Gretti Björnssyni.

Helgi E. Kristjánsson

Um miðbik áttunda áratugarins og framundir 1980 var Helgi nokkuð að leika djass en Jazzvakning var stofnuð 1975 og heilmikil vakning og tónleikahald var í kringum það, hann lék á þeim tíma töluvert með Reyni Sigurðssyni og hljómsveit hans og síðar komu Trad kompaníið og Musica Quadro. Þá tók við eins konar vísna- og þjóðlagatímabil þar sem hann hóf að leika með mönnum eins og Gísla Helgasyni og Guðmundi Árnasyni í hljómsveitinni Musica nostra og þar með tengdist hann félagsskapnum Vísnavinum sem hann átti að spila töluvert með, m.a. á plötum. Þar útsetti hann jafnframt töluvert af tónlist og starfaði þá einnig sem upptökumaður en hann hafði byrjað að fást við útsetningar í kringum 1973 þegar hann vann að tveggja laga jólaplötu Alla Rúts (síðar bílasala).

Helgi hafði samhliða djass- og vísnatónlistinni áfram leikið með danshljómsveitum, hann starfaði t.a.m. með Lúdó og Stefáni um miðjan áttunda áratuginn en þá fór í hönd sveitaballatímabil þar sem hann starfaði með hljómsveitum eins og Kaktusi, Lótusi, Þrívídd og Karma austur í Árnessýslu en þangað flutti hann og starfaði um tíma á Selfossi, m.a. við upptökur í stúdíó Glóru hjá Ólafi Þórarinssyni (Labba). Þar lék hann inn á fjölmargar plötur og útsetti m.a. fyrir Guðmund Ingólfsson djasspíanista, Bergþóru Árnadóttur, Gísla Helgason og fleiri en hann hafði einnig á síðari hluta áttunda áratugarins leikið inn á plötur Árna Johnsen, Hauks Morthens, Silfurkórsins, Diddúar & Egils o.fl. – þess má einnig geta að hann annaðist upptökur og útsetningar fyrir fangahljómsveitina Fjötra sem sendi frá sér plötuna Rimlarokk árið 1982, þegar kom að því að fylgja plötunni eftir með tónleikahaldi var hann hafður með í hljómsveitinni því flestir meðlimir hennar sátu inni. Síðar lék hann á plötum Herdísar Hallvarðsdóttur, Ásthildar Cesil, Hjördísar Geirs, Labba o.fl.

Á Selfossi fékkst Helgi einnig við annars konar tónlistartengd verkefni og af ýmsu tagi, þannig annaðist hann t.d. tónlistarstjórn í söngleiknum Þið munið hann Jörund, sem Leikfélag Selfoss setti á svið 1983, hann stjórnaði einnig til nokkurra ára Samkór Selfoss og Kór Barnaskólans á Selfossi svo dæmi séu nefnd og líklegt er að hann hafði einnig fengist við tónlistarkennslu á þessum tíma á Selfossi, hann hafði áður fengist við slíkt í Gítarskóla Ólafs Gauks á áttunda áratugnum.

Haustið 1990 flutti Helgi vestur í Ólafsvík og gerðist þar skólastjóri tónlistarskólans auk þess að stjórna kirkjukór Ólafsvíkurkirkju og Barnakór Ólafsvíkur – og var almennt mjög virkur í tónlistarstarfi bæjarbúa, þar stofnaði hann einnig sönghópinn Rjúkandi sem var kór sjómanna á staðnum en plata kom út með honum árið 1994 þar sem Helgi var allt í öllu, hann hafði þá jafnframt stofnað útgáfufyrirtækið Músíkþjónustuna sf. til að gefa út plötuna, sem hann hélt áfram að starfrækja eftir að hann flutti aftur á Selfoss árið 1994. Fyrirtækið sá um allt sem viðkom tónlist, útgáfu, upptökur, útsetningar, spilamennsku og hvaðeina tónlistartengt.

Helgi hélt áfram sem frá var horfið á Selfossi, hann vann önnur störf á þessum tíma en hafði feikinóg að gera í tónlistinni og hafði t.a.m. með tónlistarstjórn í tónlistarsýningum á Hótel Selfossi og leiksýningum hjá Leikfélagi Selfossi að gera, leikfélagið setti á svið Land míns föður og í tengslum við þá sýningu var hljómsveit stofnuð sem einnig spilaði utan sýninga, sú sveit bar nafnið Band míns föður.

Helgi E. Kristjánsson 1984

Um þetta leyti (um miðjan tíunda áratuginn) varð hann virkur í starfsemi Félags harmonikuunnenda á Selfossi (síðar Harmonikufélags Selfoss) sem hafði þá verið stofnað en Helgi varð stjórnandi hljómsveitar sem starfaði innan félagsins. Hann lærði sjálfur á takkaharmonikku og átti eftir að ná leikni á það hljóðfæri, hann lék einnig með harmonikkuleikurum úr öðrum slíkum félögum og varð töluvert virtur og þekktur innan harmonikkusamfélagsins á Íslandi. Þá lék hann inn á nokkrar plötur tengdar þessum félagsskap og í því samhengi má nefna Vindbelgina, Garðar Olgeirsson, Gísla Brynjólfsson auk auðvitað Harmonikufélag Selfoss.

Helgi virðist hafa fengist við eitt og annað tónlistartengd á tíunda áratugnum og einnig þegar komið var inn í nýja öld, hann lék t.d. með dixielandhljómsveitinni Sýslumönnum, þjóðlagasveitinni Rósinni okkar, starfrækti um tíma hljómsveit í eigin nafni og einnig dúett með söngkonunni Erlu Stefánsdóttur (Dúettinn knáa) en lék jafnframt líka dinner tónlist á Hótel Selfossi um skeið. Þá lék hann áfram inn á nokkrar plötur s.s. með Sigfúsi Ólafssyni og Huldubörnum, og fékkst áfram við kennslu, við Tónlistarskóla Rangæinga og Gítarskóla Ólafs Gauks auk annarra tilfallandi verkefna á þeim tíma. Helgi hafði verið að semja nokkuð, bæði lög og texta og komu nokkur þeirra út á plötum tónlistarfólks eins og Hjördísar Geirsdóttur, Ólafs Þórarinssonar (Labba), Gísla Helgasonar o.fl.

Helgi E. Kristjánsson lést í mars 2016 en hann var þá rétt tæplega sjötugur að aldri, hann hafði þá verið sem fyrr virkur í harmonikkusamfélaginu og hafði t.d. leikið með hljómsveit þar fáeinum dögum áður en hann lést svo segja má að hann hafi starfað við tónlistina allt fram í andlátið.