Baldur Kristjánsson (1922-84)

Baldur Kristjánsson

Píanóleikarinn Baldur Kristjánsson starfrækti og lék með fjölda hljómsveita um miðja síðustu öld.

Baldur fæddist í Reykjavík 1922, hann var yngri bróðir Einars Kristjánssonar óperusöngvara og var alltaf svolítið í skugganum af honum. Hann lærði ungur á píanó hjá Páli Ísólfssyni, Victori Urbancic og Róbert Abraham (Róberti A. Ottóssyni) og lagði einnig stund á nám á franskt horn.

Baldur hóf á unglingsárum sínum að leika opinberlega, fyrst á Verzlunarskólaárunum en hann var farinn að leika með Hljómsveit Óskars Cortes sumarið 1939 á Siglufirði, sú sveit gekk stundum undir nafninu Hots. Eftir verslunarpróf lék hann með ýmsum hljómsveitum, hann var t.d. eitt ár á Akureyri (1940) en kom síðan suður og lék lausráðinn með ýmsum hljómsveitum áður en hann hóf að leika með Hljómsveit Þóris Jónssonar. Baldur varð síðan einn þeirra sem lék á fyrstu djasstónleikunum sem hér voru haldnir hérlendis vorið 1946 að frumkvæði Jonna í Hamborg.

Baldur starfrækti eigin sveit á árunum 1947-49 og einnig af og til síðar á sjötta áratugnum en haustið 1949 gekk hann til liðs við KK-sextettinn sem hann starfaði með um tíma, þá lék hann einnig um tíma með sveitum eins og Hljómsveit Jan Morávek, Hljómsveit Svavars Gests og sveit sem starfaði í Leikhúskjallaranum árið 1959 undir nafninu Ríó tríó en sú sveit var í engu skyld þekktu þjóðlagatríói sem starfaði síðar undir því sama nafni.

Á sjöunda áratugnum var Baldur einnig með eigin sveit, hún starfaði undir nafninu Capri og löngu síðar undir nafninu Capri tríó en hann var að mestu hættur að leika með hljómsveitum um miðjan sjöunda áratuginn. Þess í stað lék hann dinner tónlist, m.a. á Naustinu og víðar, hann kenndi jafnframt á píanó og annaðist útvarpsþætti um tónlist.

Svo virðist sem Baldur hafi á sínum tónlistarferli ekki leikið inn á plötur með hljómsveitum sínum en hins vegar kom hann fram í nokkur skipti í kringum 1980 á Vísnakvöldum Vísnavina og lék þá á píanó undir aukasjálfinu Prins Fat, en Fats Waller mun hafa verið átrúnaðargoð Baldurs. Lag með Prins Fats kom út á snældunni Vísnakvöld I (1980) og er það að líkindum eina úgáfan tengd honum.

Baldur Kristjánsson lést árið 1984 liðlega sextugur að aldri.

Sjá einnig Prins Fats