Hljómsveit Borgarness (1945-52)

Hljómsveit Borgarness

Um sjö ára skeið eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari starfaði hljómsveit í Borgarnesi sem ýmist gekk undir nafninu Hljómsveit Borgarness eða Danshljómsveit Borgarness en hún var að öllum líkindum fyrsta starfandi hljómsveitin í bænum.

Sveitin var stofnuð haustið 1945 og var tríó í byrjun, það voru þeir Sigurður Már Pétursson píanóleikari, Þorsteinn Helgason harmonikkuleikari og Reynir Karlsson og hófu þeir að leika á dansleikjum fljótlega eftir það. Strax í ársbyrjun 1946 bættist fjórði maðurinn við, það var Þorleifur Grönfeldt píanóleikari en við þær breytingar færði Sigurður sig yfir á harmonikku og Þorsteinn keypti sér saxófón og síðar klarinettu og lék síðan jöfnum höndum á þau hljóðfæri – þess má geta að flestir þeirra höfðu ekkert numið hljóðfæraleik en léku eigin útsetningar eftir eyranu.

Þeir félagar léku næstu árin víða um vestanvert landið, mest í Borgarnesi og nágrenni en einnig á Mýrum og í Snæfells- og Hnappadalssýslu. Sveitin festi kaup á píanettu sem þeir ferðuðust með enda var ekki píanó í öllum samkomuhúsum á þeim tímum. Hljómsveitin naut mikilla vinsælda meðan hún starfaði og einkum var hún eftirsótt árið 1948 en það ár mun hún hafa leikið á sextíu og þremur dansleikjum – þar af tuttugu og sex í Borgarnesi, þá um sumarið söng Jón Sigurbjörnsson (síðar þekktur leikari og söngvari) með sveitinni en einnig söng Oddný Kristín Þorkelsdóttir einhverju sinni með sveitinni.

Hljómsveit Borgarness

Þetta sama sumar sá hljómsveitin ástæðu til að birta undirritað bréf í Tímanum þess efnis að engir meðlimir sveitarinnar hefðu átt hlut að máli þegar drukknir hljóðfæraleikarar sem sagðir voru vera frá Borgarnesi urðu blaðinu að fréttaefni nokkrum dögum fyrr – orðspor hljómsveitarinnar þótti þarna skipta miklu máli.

Mannabreytingar urðu á Hljómsveit Borgarness haustið 1949 er Bjarni Guðmann Sigurðsson tók við trommuleiknum af Reyni og næstu tvö árin var sveitin þannig skipuð, þá bættist gítarleikarinn Hreinn Halldórsson inn í hana og þar með var hún orðin að kvintett. Veturinn 1951 til 52 tók hljómsveitin þátt í uppfærslu ungmennafélagsins Skallagríms í Borgarnesi á söngleiknum Ævintýri á gönguför en það mun hafa verið eitt af síðustu verkefnunum sem sveitin tók sér fyrir hendur áður en hún hætti störfum. Þess má geta að upptökur með sveitinni úr sýningunni voru leiknar í Ríkisútvarpinu á sínum tíma. Ólafur Andrésson píanóleikari mun hafa leikið með Hljómsveit Borgarness um tíma og er hér giskað á að það hafi verið undir lok starfstíma hennar árið 1952.