Hermína Sigurgeirsdóttir (1904-99)

Hermína Sigurgeirsdóttir

Nafn Hermínu Sigurgeirsdóttur hefur ekki farið hátt en hún var virtur píanókennari sem starfaði lengi við Tónlistarskólann í Reykjavík, hún var einn af fyrstu menntuðu píanóleikurum hér á landi.

Hermína Sigurgeirsdóttir var fædd í Bárðardalnum vorið 1904, hún var dóttir Sigurgeirs Jónssonar organista og kórstjóra sem segja má að hafi verið einn af hornsteinum akureysks tónlistarlífs í upphafi 20. aldarinnar, en hann flutti með fjölskyldu sína til Akureyrar þegar Hermína var aðeins fárra mánaða gömul. Bróðir Hermínu var einnig mikið í tónlist en það var píanóleikarinn og kórstjórnandinn Gunnar Sigurgeirsson.

Hermína nam píanó- og orgelleik hjá föður sínu og svo hjá Kurt Haeser, þýskum píanókennara sem bjó og starfaði á Akureyri um miðjan þriðja áratuginn. Hún var því snemma farin að nema tónlist og leysti föður sinn stundum af við organistastörf en einnig lék hún undir söng á tónleikum og skemmtunum á Akureyri, m.a. hjá Helgu Bjarnadóttur og Sigurði Birkis sem þar héldu einsöngstónleika. Þá mun hún einnig hafa stjórnað sönghópi stúlkna sem söng opinberlega á skemmtunum í bænum.

Haustið 1926 fór Hermína til Kaupmannahafnar til að nema þar söngfræði og píanóleik við Konunglega tónlistarskólann en þar dvaldist hún um þriggja ára skeið. Í Danmörku kynntist hún verðandi eiginmanni sínum Birni Kristjánssyni frá Sauðárkróki en þau áttu svo eftir að ganga í hjónaband og tók Hermína í kjölfarið upp föðurnafn Björns og gekk undir nafninu Hermína Kristjánsson eða Hermína S. Kristjánsson, erlendis.

Að loknu náminu í Kaupmannahöfn kom Hermína hingað til lands sumarið 1929 en hélt svo af landi brott til Berlínar í Þýskalandi þar sem þau hjónakornin áttu eftir að búa næstu árin. Hermína var í framhaldsnámi í Þýskalandi og lék einnig eitthvað á tónleikum, m.a. á Brahms-tónleiku og undir söng Engel Lund (Göggu Lund) en á árunum 1929 og 30 komu einmitt út fjórar plötur með söngkonunni hér heima við undirleik Hermínu, hún hóf jafnframt að kenna á píanó þegar harðna tók í ári eftir að heimsstyrjöldin skall á. Hún hafði fyrir stríð náð að koma hingað til Íslands árið 1936 og lék þá í útvarpssal og voru þær upptökur stöku sinnum leiknar þar aftur.

Hermína S. Kristjánsson

Þau hjónin voru öflug í félagslífi Íslendinga í Þýskalandi á þessum árum, voru í raun potturinn og pannan í Íslendingafélaginu þar um árabil en svo fór að lokum að þau fluttu til Kaupmannahafnar á stríðsárunum og bjuggu þar til stríðsloka, þar kenndi Hermína einnig á píanó en þau höfðu náð að flytja búslóðina með til Danmerkum, þ.á.m. flygil sem þau áttu.

Árið 1945 flutti fjölskyldan heim til Íslands á nýjan leik og í kjölfarið hóf hún strax að kenna á píanó í einkakennslu en lék þeim minna á tónleikum – sem hún gerði þó eitthvað af til fyrstu árin eftir heimkomuna. Hún hafði yfrið nóg að gera við píanókennslu og mun mest hafa verið með um fjörutíu nemendur, hún var þó á hrakhólum með kennsluhúsnæði og svo kom að því að hún leitaði til Tónlistarskólans í Reykjavík og hóf svo að starfa þar. Hún kenndi við tónlistarskólann í um þrjá áratugi, var fyrsti kennari píanódeildar skólans og veitti síðan deildinni forstöðu þegar hún var formlega stofnuð, hún kenndi við skólann til haustsins 1978 en hætti þá sökum aldurs. Hermína var ekki aðeins píanókennari heldur var einnig talað um hana sem siðameistara tónlistarskólans því hún kenndi þar einnig framkomu, hneigingar og annað sem viðkom því að leika á tónleikum. Eins og gefur að skilja kenndi Hermína mörgum síðar þjóðþekktum píanóleikurum og hér má nefna Eddu Erlendsdóttur, Snorra Sigfús Birgisson, Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, Svönu Víkingsdóttur og Guðríði St. Sigurðardóttur sem örfá dæmi um nemendur hennar.

Hermína var einnig mikilvirk í félagsmálum tónlistarfólks, var t.d. í stjórn Bandalags íslenskra listamanna og Félags íslenskra tónlistarmanna (og formaður um skeið) og var þar gerð að heiðursfélaga rétt eins og í Félagi tónlistarkennara. Þá hlaut hún fálkaorðuna fyrir framlag sitt til tónlistarkennslu á Íslandi, auk fleiri viðurkenninga.

Hermína lést árið 1999 á nítugasta og sjötta aldursári en minningartónleikar voru haldnir um hana í Íslensku óperunni vorið 2004 þegar hún hefði orðið 100 ára gömul. Píanóleik hennar er hvergi að finna á útgefnum plötum nema þeim sem komu út með Engel Lund um 1930.