Engel Lund (1900-96)

Engel Lund2

Engel Lund

Nafn Engel Lund er vel þekkt meðal tónlistaráhugafólks sem komið er fram yfir miðjan aldur en þessi þjóðlagasöngkona og síðar söngkennari er mikils metin innan þjóðlagahefðarinnar og er alveg óhætt að tala um hana sem fyrstu heimsfrægu söngkonu Íslands, þótt fáir þeirra yngri þekkti til hennar og afreka hennar.

Engel Lund (iðulega nefnd Gagga Lund) fæddist í Reykjavík aldamótaárið 1900, dóttir danskra apótekarahjóna, og bjó hérlendis til ellefu ára aldurs. Þá fór hún til Kaupmannahafnar og eftir stúdentspróf var förinni heitið til Þýskalands og Frakklands í söngnám.

Engel hélt tryggð við sína íslensku heimahaga þrátt fyrir danska þjóðernið og hér átti hún eftir að halda tónleika fyrir og eftir að hún hlaut heimsfrægð fyrir túlkun sína á þjóðlögum, fyrst árið 1926. Það var þó líklega ekki fyrr en 1928 sem áhugi hennar snerist til þjóðlagahefðarinnar en hún hafði lært klassíslan söng og hafði hugur hennar fram að því snúið að þeim geira sönglistarinna. Um þetta leyti kynntist hún austurríska píanónleikaranum Ferdinand Rauter sem átti eftir að verða samstarfsmaður hennar og meðleikari í um fjörutíu ár, hann útsetti ennfremur lögin.

Engel helgaði líf sitt þjóðlögum frá ýmsum löndum og lagði sig mjög fram um að túlka þau sem næmast, í þeim tilgangi lærði hún fjölmörg tungumál og náði þeim blæbrigðum sem hvert og eitt þjóðlag hafði að geyma á sinni tungu. Því var hún mikil tungumálamanneskja. Íslenskan og íslensk þjóðlög voru henni þó alltaf einna hjartkærust og var viðtekin venja hjá henni að ljúka tónleika sína á íslensku þjóðlagi. Enn fremur hafði hún þann háttinn á á tónleikum að kynna lögin og efni þeirra fyrir áhorfendum fyrirfram, sem varð aukinheldur til að dýpka skilning þeirra á efninu, sem oftar en ekki var á framandi tungumáli fyrir þeim. Engel varð þannig heimsfræg fyrir flutning sinn á þjóðlögum og túlkun þeirra og er ekki víst að allir geri sér grein fyrir hversu víða hróður hennar barst á þessu tiltölulega fjölmiðlafríu tímum.

1929 og 30 komu út hér á landi fjórar 78 snúninga plötur með söng hennar og með henni á upptökunum lék Hermína Sigurgeirsdóttir á píanó, Hljóðfærahús Reykjavíkur gaf plöturnar út en upptökurnar voru gerðar í Berlín í Þýskalandi. Ein slík plata kom út í viðbót 1954, Fálkinn stóð að útgáfunni í það skiptið.

1960 kom út áf vegum Almenna bókafélagsins og Fálkans breiðskífa, ein fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og klárlega sú fyrsta með söngkonu, þar sem Engel Lund söng þrjátíu og fimm íslensk þjóðlög við undirleik Ferdinands Rauter. Samhliða útgáfu plötunnar kom út bók eða nótnahefti samnefnt plötunni (Íslenzk þjóðlög) og hefur það verið mörgum hálfgerð biblía líkt og þjóðlagasafn Bjarna Þorsteinssonar hefur löngum verið. Platan var fyrst og fremst hugsuð með erlendan markað í huga og hefur því megnið af upplaginu glatast og er illfáanlegt. Íslenzk þjóðlög var þó endurútgefin en er þó sjaldgæf og í raun hefur hún ekki fengist á almennum markaði fyrr en Íslenskir tónar gáfu hana út á geislaplötu árið 2000, á hundrað ára fæðingarári Engel Lund.
1960, sama ár og breiðskífan kom út var Engel Lund stödd hér á landi á tónleikaferðalagi þegar stungið var að henni að koma „heim“ og fara að kenna söng, henni leist svo vel á hugmyndina að hún tók hana á orðinu og var þar með hætt öllum tónleikaferðalögum og opinberum sönguppákomum.

Engel Lund og Ferdinand Rauter1

Engel Lund og Ferdinand Rauter

Svo fór að hún hóf að kenna söng og raddbeitingu við Tónlistarskólann í Reykjavík og átti eftir að stunda það starf fram undir nírætt, fjölmargir þekktir Íslendingar, bæði söngfólk og leikarar lærðu list sína hjá henni og má þar nefna nöfn eins og Svölu Nielsen, Eddu Þórarinsdóttur, Halldór Vilhelmsson, Hrönn Hafliðadóttur, Björku Guðmundsdóttur, Kristin Sigmundsson, Þorgerði Ingólfsdóttur, Egil Ólafsson, Guðrúnu Ásmundsdóttur, Kristínu Á. Ólafsdóttur og Guðrúnu Tómasdóttur, en þær tvær síðast töldu fóru sjálfar út í þjóðlagahefðina, Guðrún gaf m.a. síðar út plötu sem hún tileinkaði Engel Lund.

Engel Lund lést í Reykjavík 1996, þá háöldruð. Hún ásamt Bjarna Þorsteinssyni má klárlega telja til þeirra sem hafa varðveitt og haldið hefð íslenskra þjóðlaga hvað helst á lofti, sú þjóðlagabylgja sem skall á hérlendis um og eftir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar má að hluta rekja til hennar starfa þótt erlend áhrif hafi vissulega einnig komið til.

Engel hlaut margvíslegar viðurkenningar um ævina fyrir starf sitt, meðal annars má nefna fálkaorðuna en einnig má geta þess að Frank Ponzi vann heimildamynd um hana, hún hlaut nafnið Engel Lund (1900-1996) – singer of world folk songs, og var ríflega tuttugu ár í vinnslu en var frumsýnd árið 2000. Myndin hefur meðal annars að geyma viðtöl við söngkonuna frá áttunda áratugnum.

1996 kom út á vegum Smekkleysu platan Íslensk þjóðlög: safn Engel Lund en á henni fluttu hjónin Marta G. Halldórsdóttir söngkona og Örn Magnússon píanóleikari þjóðlögin þrjátíu og fimm sem komið höfðu út 1960.

Árið 2008 var söngdagskrá haldin Engel Lund til heiðurs í Reykjavík, London og Vín, þar sem fjölþjóðlegur hópur söngvara flutti á ýmsum tungumálum þjóðlög sem hún hafði haldið á lofti. Fulltrúi Íslands í þeim hópi var Sigríður Ósk Kristjánsdóttir. Var þar um að ræða eins konar minningartónleika og sýningu á ýmsu tengdu henni, samhliða því var gefin út á vegum Nimbus records og Lieder theatre London, nótnabók með þjóðlögunum og platan Engel Lund‘s book of folks songs. Af þessu má sjá hversu mikils metin Engel Lund var í heimi þjóðlagatónlistarinnar.

Efni á plötum