Herdís Þorvaldsdóttir (1923-2013)

Herdís Þorvaldsdóttir

Herdís Þorvaldsdóttir var þekkt og dáð leikkona sem starfaði alla tíð við list sína, fyrst hjá Leikfélagi Reykjavíkur og svo einnig Þjóðleikhúsinu. Hún var fædd haustið 1923 og nam við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og svo einnig í London en hún lék allt fram í andlátið og átti að baki fjölmörg hlutverk stór og smá á sviði, í sjónvarpi og kvikmyndum, og var margsinnis heiðruð á ferli sínum fyrir ævistarfið. Hún var jafnframt mikill umhverfissinni og barðist fyrir verndun náttúrunnar. Segja má að leiklistin hafi gengið í erfðir frá Herdísi því meðal barna hennar og annarra afkomenda má finna þekkta leikara og leikstjóra.

Herdís var fyrst og fremst leikkona og mun ekki hafa sungið mikið á sviði, söng hennar má þó heyra á plötu Eddu Heiðrúnar Backman – Fagur fiskur í sjó (2001) og leik hennar má heyra í fjögurra platna pakkanum Íslandsklukkunni, sem kom út þjóðhátíðarárið 1974 en þar lék hún eitt sitt þekktasta hlutverk, Snæfríði Íslandssól. Ein plata kom jafnframt út í nafni Herdísar, það var ljóðaplatan Óskaljóðin mín: Herdís Þorvaldsdóttir les eftirlætis ljóðin sín, sem kom út árið 1995 á vegum Skífunnar. Þar er að finna fjörutíu og þrjú ljóð lesin af leikkonunni en Rut Guðmundsdóttir flautuleikari lætur einnig til sín heyra á þeirri plötu.

Herdís lést vorið 2013, þá rétt tæplega níræð.

Efni á plötum