Afmælisbörn 29. ágúst 2016

Herdís Hallvarðsdóttir

Herdís Hallvarðsdóttir

Sex afmælisbörn í tónlistargeiranum koma við sögu Glatkistunnar að þessu sinni:

Benóný Ægisson (Benni Ægizz) leikari og tónlistarmaður er sextíu og fjögurra ára. Benóný hefur sent frá sér sólóplötur, nú síðast fyrir fáeinum vikum, en hann hefur einnig verið viðloðandi hljómsveitir eins og Kamarorghesta, Sódó ódó og Orghesta.

Herdís Hallvarðsdóttir er sextíu ára gömul og á því stórafmæli. Herdís var bassaleikari Grýlnanna á sínum tíma en var líka í Hálfu í hvoru, Karma, Teppinu hennar tengdamömmu og Islandicu. Herdís hefur gefið út tvær sólóplötur og starfrækir útgáfufyrirtækið Hljóðbók ásamt eiginmanni sínum Gísla Helgasyni.

Erpur Þórólfur Eyvindarson (Blaz Roca / Johnny National) rappari og tónlistarmaður er þrjátíu og níu ára gamall. Erpur hefur starfað með rapp- og hiphopsveitum eins og XXX Rottweiler hundum, Supah syndical og Hæstu hendinni en einnig komið fram á plötum annarra rappara. Hann gaf út sólóplötuna Velkomin til Kópacobana árið 2010.

Logi Pedro Stefánsson bassaleikari Retro Stefson er tuttugu og fjögurra ára gamall en hann hefur verið í hljómsveitum frá unga aldri. Hann hefur einnig starfrækt dúettinn Young Karin (áður Highlands) og gefið út efni undir aukasjálfinu Pedro Pilatus.

Elísabet Erlingsdóttir sópransöngkona hefði einnig átt þennan afmælisdag en hún lést 2014. Elísabet (f. 1940) nam söngfræði sín í Þýskalandi, kom heim og fékkst við söngkennslu en hún var aðalsöngkennari Listaháskólans til dánardags. Söng Elísabetar má heyra á tveimur sólóplötum hennar en einnig söng hún inn á fjölda annarra platna, m.a. sem einsöngvari með Karlakór Reykjavíkur og Kvennakór Suðurnesja.

Sigurjón Brink (Róbertsson) átti ennfremur afmæli en hann hefði orðið fjörutíu og tveggja ára í dag. Sigurjón (1974-2011) var fjölhæfur, söng, lék á gítar og trommur í hljómsveitum eins og In bloom og The Flavors áður en hann varð áberandi í undankeppnum Eurovision. Lag hans Aftur heim, hafði komist í úrslit keppninnar í ársbyrjun 2011 þegar Sigurjón lést af völdum heilablóðfalls. Félagar hans fluttu lagið í úrslitum og sigruðu undir nafninu Vinir Sjonna, og fóru með það í lokakeppni Eurovision. Sigurjón var nokkuð viðloðandi leikhús, var einn af stofnendum Vesturports, og gaf út sólóplötu 2009.