
Hljómsveit Þórarins Guðmundssonar
Þórarinn Guðmundsson var fyrstur Íslendinga til að nema sig í fiðluleik hér á landi og var þ.a.l. viðloðandi flestar þær hljómsveitir sem störfuðu fyrstu áratugi 20. aldarinnar, reyndar er þó ekki alltaf ljóst hverjar þessara sveita störfuðu í nafni Þórarins og hverjar voru Hljómsveit Reykjavíkur eða Útvarpshljómsveitin sem hann starfaði með og stjórnaði um tíma.
Fyrsta hljómsveit Þórarins var sett á laggirnar árið 1914 en hann var þá tiltölulega nýkominn heim til Íslands eftir tónlistarnám í Kaupmannahöfn, þessi fyrsta sveit hans sem ýmist gekk undir nafninu Hljómsveit Þórarins Guðmundssonar eða Hljóðfærasveit Þórarins Guðmundssonar lék á Hótel Skjaldbreið til að byrja með og rétt er að geta áður en lengra er haldið að hér var um einhvers konar strengjasveit í grunninn sem sjálfsagt hefur einnig innihaldið blásturshljóðfæri eða jafnvel harmonikku. Síðar átti sveitin eftir að vera eins konar húshljómsveit á Hótel Íslandi (hinu eldra) og svo á árunum 1922-26 í Cafe Rosenberg sem var í kjallara Nýja bíós – sú útgáfa sveitarinnar gæti hafa gengið undir nafninu Rosenberg trio meðan sveitin lék þar. Hljómsveit Þórarins var mismunandi að stærð og skipan, fyrst um sinn var hún auglýst sem fimm manna hljómsveit / hljóðfæraflokkur en stundum einnig sem sextett, tíu manna eða aðeins sem tríó, sjálfsagt hafa verið ýmsar útfærslur á því. Hljómsveit Þórarins lék ekki aðeins á fyrrgreindum stöðum heldur einnig í samkomuhúsum eins og Iðnó á almennum dansleikjum og á leiksýningum Leikfélags Reykjavíkur í húsinu sem og í kvikmyndasýningum í Nýja bíói.
Árið 1920 stofnaði Þórarinn aðra sveit sem starfaði samhliða hinni sveitinni en stofnað var til hinnar nýju sveitar til að leika við konungskomu en Kristján X var þá væntanlegur til landsins um sumarið Ekki fór svo að konungurinn heimsótti Ísland fyrr en ári síðar en sveitin sem var skipuð tuttugu manns hafði verið stofnuð og starfaði um fjögurra ára skeið undir nafninu Hljómsveit Reykjavíkur áður en hún var lögð niður vegna fjárskorts – síðar var stofnuð ný Hljómsveit Reykjavíkur á grunni hinnar gömlu og kom Þórarinn einnig að þeirri sveit fyrst um sinn, sú sveit varð síðar (ásamt fleiri sveitum) að Sinfóníuhljómsveit Íslands. Í einhverjum tilfellum var Hljómsveit Reykjavíkur einnig kölluð Hljómsveit Þórarins í heimildum svo auðvelt er að rugla þeim sveitum saman. Meðal hljóðfæraleikara sem nefndir hafa verið sem meðlimir sveitar Þórarins á einhverjum tímapunkti má nefna bróður hans, Eggert Gilfer píanóleikara en einnig Aage Lorange píanóleikara, Karl O. Runólfsson fiðluleikari, Indriði Bogason fiðluleikari, Þórhallur Árnason sellóleikari, Kristján Sigurðsson lágfiðluleikari, Páll Þorkelsson kontrabassaleikari og Þórarinn Björnsson [?], sumir þeirra gætu þó hafa verið meðlimir Hljómsveitar Reykjavíkur, og reyndar gerðust það stundum að báðar sveitirnar, Hljómsveit Reykjavíkur og Hljómsveit Þórarins léku á sömu tónleikunum.
Þórarinn og hljómsveit hans léku þannig nokkuð óslitið fram til 1936, síðustu árin var sveitin aðallega viðloðandi leikhústónlist og kvikmyndasýningar en lék einnig á árlegum haustmarkaði KFUM. Ástæðan fyrir því að minna fór þá fyrir sveitinni var að árið 1930 hafði hann tekið til starfa sem hljómsveitastjóri hjá nýstofnuðu Ríkisútvarpi og lék þar mikið auk þess að stjórna þar bæði minni hljómsveitum og stærri s.s. Útvarpshljómsveitinni, sem þá voru að sjálfsögðu einnig kallaðar hljómsveitir Þórarins.
Þess má geta að árið 1930 voru hljóðritaðar fjölmargar 78 snúninga plötur á vegum Columbia fyrir Fálkann í tilefni af Alþingishátíðinni sem þá var haldin hátíðleg, og á einnig slíkri plötu kom hljómsveit Þórarins líklega við sögu og lék þar þjóðlög. Í bókinni Skrá yfir íslenzkar hljómplötur 1907-1955 (e. Jón R. Kjartansson) er talað um ótilgreinda hljómsveit en í Íslenskri hljómplötuskrá Bárðar Bárðarsonar (2002) er talið víst að um hljómsveit Þórarins sé að ræða.
Hljómsveit Þórarins virðist hafa hætt störfum árið 1936 vegna anna hans hjá Ríkisútvarpinu en um miðjan fimmta áratuginn hóf hann að stýra litlum hljómsveitum á leiksýningum Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó, hér má t.d. nefna sýningar á Skugga Sveini og Skálholti svo dæmi séu nefnd. Þessi verkefni Þórarins voru öll í minni kantinum en einnig tók hann að sér að stjórna hljómsveitum fyrir sérstök verkefni s.s. við norrænar menningarhátíðir, þing stjórnmálaflokka, opnun Stjörnubíós og slíks. Sem fyrr eru heimildir um þessar sveitir Þórarins af skornum skammti og reyndar finnast engar upplýsingar um skipan þessara sveita en Þórarinn starfrækti þess háttar hljómsveit síðast árið 1958 eftir því sem best verður séð.


