Þórarinn Guðmundsson (1896-1979)

Þórarinn Guðmundsson

Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari og tónskáld hefur verið kallaður faðir íslenskra fiðluleikara en hann var fyrstur Íslendinga til að fullnema sig á hljóðfærið á sínum tíma. Hann kenndi jafnframt mörgum af þeim fiðluleikurum sem síðar léku með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Þórarinn fæddist vorið 1896 á Akranesi. Fiðla var til á æskuheimilinu en fáir spiluðu á slíkt hljóðfæri og enn færri höfðu hlotið einhverja tilsögn á fiðlu, enginn hafði lokið fullnaðarprófi hérlendis. Þórarinn lærði lítillega á píanó sem barn og eitthvað á fiðluna, hjá danskri konu Henriette Brynjólfsson og síðan hjá Oscari Johansen.

Snemma kom í ljós að drengurinn væri músíkalskur og að fiðlan beinlínis léki í höndum hans, hann átti því auðvelt með að læra á hljóðfærið og var farinn að koma fram opinberlega við ýmis tækifæri, m.a. með litlum hljómsveitum eins og kvartettum, þá tæplega kominn á unglingsaldur.

Það lá beinast við að Þórarinn færi utan til frekari náms og svo fór að móðir hans flutti með honum til Kaupmannahafnar haustið 1909 þar sem hann skyldi nema fiðluleik en hann var þá aðeins fjórtán ára gamall. Í Danmörku nam hann í þrjú ár og útskrifaðist sem fullnuma fiðluleikari (með píanó sem aukagrein), þar í landi kom Þórarinn fram í nokkur skipti sem einleikari með hljómsveitum og einnig sem konsertmeistari í hljómsveit KFUM í Kaupmannahöfn. Hann kom aftur heim til Íslands 1913.

Fyrst í stað var lítið að gera fyrir ungan fiðluleikara á Íslandi og framan fékkst Þórarinn mestmegnis við tónlistarkennslu og lék við ýmis tækifæri, við jarðarfarir, brúðkaup, leikhússýningar og á veitingastöðum á kvöldin, stundum lék hann ásamt Eggert (Gilfer) bróður sínum sem einnig hafði menntað sig í Danmörku, á orgel. Þeir bræður léku stundum undir kvikmyndasýningum.

Hann stofnaði og stjórnaði Hljómsveit Reykjavíkur, tuttugu manna sveit sem sett var á laggirnar í tilefni af konungskomu 1921, og stýrði henni í þrjú ár. Þá fór hann reyndar einn vetur til Þýskalands til framhaldsnáms. 1929 stýrði hann hljómsveit sem skipuð var börnum og unglingum, á tónleikum sem vöktu mikla athygli en slíkt var algjört einsdæmi hér á landi á þeim tíma.

Þórarinn var við upphaf Ríkisútvarpsins ráðinn fiðluleikari stofnunarinnar og síðan hljómsveitarstjóri Útvarpshljómsveitarinnar sem varð síðar einn undanfara Sinfóníuhljómsveitar Íslands er var stofnuð 1950, hann starfaði síðar með sinfóníunni þar til hann varð að hætta sökum aldurs, hjá Ríkisútvarpinu starfaði hann sem hljómsveitarstjóri til sjötugs.

Þórarinn með fiðluna

Hann fékkst alla tíð við kennslu og skiptu nemendur hans hundruðum, margt af þekktasta tónlistarfólki þess tíma nam hjá honum og m.a. má nefna Jórunni Viðar, Karl O. Runólfsson, Oddgeir Kristjánsson, Sigurð Þórðarson og dr. Hallgrím Helgason. Margir nemenda hans urðu þjóðkunnir fiðluleikarar og léku síðar með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Þórarinn var þó fyrst og fremst tónskáld og eftir hann liggja um þrjú hundruð tónverk af ýmsu tagi. Hann samdi m.a. kóralög og einsöngslög og meðal þekktra laga eftir hann má nefna Dísa, Táp og fjör, Í fjarlægð, Þú ert og Land míns föður, sem hann fékk verðlaun fyrir á lýðveldishátíðinni 1944.

Þórarinn lék á nokkrum plötum á ferli sínum, hann lék t.a.m. á plötum með söngvurunum Maríu Markan og Einari Kristjánssyni auk þess að leika með og stjórna Útvarpshljómsveitinni á upptökum sem síðar hafa verið gefnar út á plötum. Árið 1930 kom út tveggja laga plata með íslenskum þjóðlögum, lengi vel var ekki vitað hvaða hljómsveit var þar á ferð og í Skrá yfir íslenzkar hljómplötur 1907 – 1955 var flytjandi plötunnar sagður „hljómsveit, ótilgreind“. Í seinni tíð hafa menn talið fullvíst að um sé að ræða hljómsveit undir stjórn Þórarins Guðmundssonar, hugsanlega Útvarpshljómsveitin. 1978 gaf Frímúrarareglan á Íslandi út tólf laga plötu með lögum eftir Þórarin, platan hét Lög eftir Þórarin Guðmundsson sungin og leikin og komu þar ýmsir þekktir einsöngarvar við sögu. Þess þarf vart að geta að lög Þórarins hafa komið út á fjölda annarra platna.

Árið 1966 kom út bókin Strokið um strengi, ævisaga Þórarins, en hún var skráð af Ingólfi Kristjánssyni.

Ýmsir heiðruðu Þórarin í lifanda lífi, hann var t.d. heiðursfélagi í FÍH og Tónskáldafélaginu en hann var framarlega í báðum félögunum, og þegar FÍH hélt upp á fimmtíu ára afmæli sitt árið 1982 með stórtónleikum var sett saman hljómsveit í anda Þórarins.

Þórarinn lést 1979 á níræðis aldri.

Efni á plötum