Þórbergur Þórðarson (1888-1974)

Þórbergur Þórðarson

Rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson er ekki beinlínis tengdur íslenskri tónlistarsögu en þrjár plötur hafa þó verið gefnar út með upplestri hans og öðru efni.

Þórbergur fæddist árið 1888 á Hala í Suðursveit og kenndi sig alltaf við þann bæ, hann fluttist til Reykjavíkur um unglingsaldur og vakti fljótlega athygli fyrir greinaskrif og ljóð, og síðar ævisögulegar skáldsögur auk ævisagna í mörgum bindum um Árna prófast Þórarinsson og Einar ríka.

Þekktustu verk hans er áðurnefnd Ævisaga Árna prófasts, Bréf til Láru, Íslenskur aðall, Ofvitinn og Sálmurinn um blómið sem eru meðal þekktustu bókmenntaverka Íslandssögunnar. Þórbergur varð síðar einnig öflugur talsmaður Esperanto tungumálsins hérlendis.

Þórbergur þótti skemmtilegur karakter og mörgum fannst hann (a.m.k. framan af) passa illa inn í íslenskt rithöfundaumhverfi með oft óútreiknanlegri hegðun sinni en með stílsnilldinni sannaði hann að hann var rithöfundur í fremstu röð.

Þórbergur lést 1974 en mörgum árum síðar (2006) var Þórbergssetrið sett á stofn að Hala í Suðursveit til að heiðra minningu hans.

1970 og 71 gaf  Fálkinn út tvær plötur sem höfðu að geyma efni með Þórbergi, Þórbergur Þórðarson les úr eigin verkum vol. I og II en þær hlutu báðar góða dóma í Vikunni.

1975, ári eftir að Þórbergur lést kom út plata (gefin út af Demant) undir heitini Þórbergur Þórðarson: Æskuminningar. Á þeirri plötu er að finna viðtöl Gylfa Gíslasonar við Þórberg og Steinþór Þórðarsyni, auk samlestur úr verkum hans.

Efni á plötum