Afmælisbörn 27. mars 2015

Þórarinn Guðmundsson

Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari

Afmælisbarn Glatkistunnar í dag er aðeins eitt:

Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari og tónskáld (1896-1979) átti afmæli á þessum degi en hann er á margan hátt frumkvöðull í tónlistarsögu Íslands. Hann varð fyrstur Íslendinga til að læra á fiðlu, fór til þess fjórtán ára til Danmerkur og nokkru síðar í framhaldsnám til Þýskalands. Hér heima kenndi hann tónlist, stofnaði og stýrði hljómsveitum sem ýmist voru nefndar Hljómsveit Reykjavíkur eða Hljómsveit Þórarins Guðmundssonar og eru þær réttilega nefndar fyrstu alvöru hljómsveitir Íslands. Hann stýrði ennfremur og lék með Útvarpshljómsveitinni eftir stofnun þeirrar stofnunar. Þórarinn var einnig tónskáld og samdi mörg sönglög sem margir þekkja, meðal þeirra má nefna Land míns föður, Táp og fjör, Fósturlandsins freyja, Þú ert og Dísa.