Pólstjarnan
(Lag / texti: Ágúst Pétursson / Kristján frá Djúpalæk)
Ennþá men ég það frá bernsku hve þú brostir hýrt til mín
milli bæja, þegar var ég einn í för.
Og mér fannst þú augað vera, sem vakti yfir mér,
eini vinurinn, sem gaf við spurning svör.
En ég hlaut að kveðja æskubyggð og heimþrá mín er sár,
oft þó harðni skap í byl og frjósi tár.
Þegar myrkur byrgir landsýn er lögð á þóftu ár
og ég leita þín með bænarorð á vör.
En þú vakir allar nætur í vegalausum geim,
eini vinur þess, sem gengur myrkvað land.
Og þú vísar mér til áttar um úfinn vetrarsæ,
þegar öldur litlu fleyi boða grand.
Og þó dimmi fyrir sjónum og daprist von og trú
hátt á draumhimni bláum sindrar þú.
Og þú tengir milli heimþrár og hafnar gullna brú,
meðan hafið kyssir lágan fjörusand.
[m.a. á plötunni Vilhjálmur Vilhjálmsson – Dans gleðinnar]