Hæfileikakeppni Safarí [tónlistarviðburður] (1984-85)

Frá Hæfileikakeppni Safarí 1984 – Ósk er þriðja frá vinstri (með sólgleraugu).

Hæfileikakeppni kennd við skemmtistaðinn Safarí við Skúlagötu var haldin sumarið 1984 í tvígang á vegum umboðsskrifstofunnar Sóló og þriðja keppnin var svo haldin árið eftir. Margt er óljóst varðandi þessa/r keppni/r.

Efnt var til keppni fyrir hæfileikaríkt fólk á tónlistarsviðinu undir merkjum Hæfileikakeppni Safarí sumarið 1984 og var hljómsveit sett saman til að leika undir flutningi keppenda, hún var skipuð þeim Sigurgeiri Sigmundssyni gítarleikara, Jóni Björgvinssyni trommuleikara, Sveini Kjartanssyni bassaleikara og Björgvini Gíslasyni hljómborðs- og gítarleikara.

Fyrirkomulag keppninnar virðist hafa verið nokkuð ruglingslegt og samkvæmt fjölmiðlum átti það að vera með þeim hætti að fyrst yrðu tvö undankvöld haldin, annars vegar þar sem einstaklingar kepptu sín á milli og svo hins vegar keppni milli hljómsveita eða tónlistarhópa. Svo virðist sem því hafi síðan verið breytt og öllu blandað saman en heimildir eru fáar og óljósar, þannig er t.a.m. talað um þrjú undankvöld í einhverjum þeirra en að lokum var um tvær aðskildar hæfileikakeppnir að ræða sumarið 1984 og svo þriðju keppnina 1985.

Fyrsta keppnin fór fram með pomp og prakt um sumarið 1984 og þar sigraði söngkonan Ósk Óskarsdóttir með lagið Qui Vadis? og Harpa Helgadóttir varð í öðru sæti en þær skutu keppendum eins og Sverri Stormsker og Guðlaugi Falk ref fyrir rass – Ósk átti að fá að launum fimmtíu hljóðverstíma sem hún hlaut reyndar aldrei en hún hefur reyndar síðan þá sent frá sér nokkrar plötur.

Boðað var til annarrar keppni í kjölfarið en henni var hins vegar frestað í tvígang og var loks haldin um mánuði síðar en þá voru komnir aðrir í hljómsveit undirleikara – Birgir Baldursson trommuleikari, Skarphéðinn Hjartarson hljómborðsleikari, Ari Kristinsson gítarleikari og Sigurður Halldórsson bassaleikari skipuðu sveitina en það kvöld mun Gísli Ólafsson hafa verið sigurvegari.

Guðjón Guðmundsson krýndur sigurvegari í Hollywood

Að síðara keppniskvöldinu á Safarí loknu gerðist ekkert þar til í mars 1985 að umboðsskrifstofan Sóló gaf út að úrslit hæfileikakeppninnar yrðu haldin á næstunni, annars vegar yrðu tvö kynningarkvöld þar sem sex keppendur sem áður hefðu tryggt sig í úrslitin létu ljós sitt skína og úrslitakvöldið sjálft yrði svo haldið í kjölfarið – jafnframt yrði keppnin sem áður var kennd við Safarí, haldin í Hollywood. Hér var í raun gefið í skyn að hin keppniskvöldin hefðu verið undanúrslit en nú færu sjálf úrslitin fram þrátt fyrir að áður hefði verið talað um þær keppnir sem sjálfstæðar einingar. Sú keppni var svo haldin í Hollywood fyrir fullu húsi þar sem Guðjón Guðmundsson, Guðlaugur Falk, Jón Ben Einarsson, Jón Magnússon og Sigurður V. Dagbjartsson fluttu tvö lög hver við undirleik hljómsveitarinnar Rikshaw, sem varð því þriðja hljómsveitin til að leika í keppninni, keppendur fyrri „undankeppnanna“ voru þar líklega hvergi nærri en gefið var út að alls hefðu 22 atriði verið flutt í henni.

Úrslit þeirrar keppni urðu þau að Guðjón Guðmundsson bar sigur úr býtum en hann átti síðan eftir að koma nokkuð fram í kjölfarið, og gaf reyndar einnig út plötu síðar sem bar nafnið Gaui en upptökutímar voru meðal verðlauna í keppninni. Sigurður V. Dagbjartsson hafnaði í öðru sæti en hann er þekktastur fyrir að syngja lagið um Rabbarbara-Rúnu en ekki er að fullu ljóst hver varð í þriðja sæti, ein heimildin segir að eina stúlkan í úrslitunum, Sigríður Björgvinsdóttir hafi hafnað í því en hún er hvergi nefnd í öðrum heimildum.

Meiningin var að farið yrði með hluta af hópnum til að skemmta víðs vegar um landið en af því virðist ekki hafa orðið. Nokkrir framangreindra keppenda áttu hins vegar eftir að helga sig tónlistargyðjunni og koma að plötuútgáfu og tónleikahaldi á næstu árum.