Hælsæri (2010-)

Hælsæri

Rokksveitin Hælsæri hefur starfað um árabil á Akureyri, með hléum en hefur síðustu árin verið virkari í tónleikasenunni en oft áður.

Hælsæri var að öllum líkindum stofnuð á Akureyri árið 2009 eða 2010 en hún var komin á skrið í spilamennskunni sumarið 2010, lék þá m.a. á tónlistarhátíðunum Gærunni á Sauðárkróki og Akureyri rokkar um haustið. Meðlimir sveitarinnar voru þá þeir Þorlákur Lyngmo Sveinsson gítarleikari, Ágúst Örn Pálsson gítarleikari, Steinar Sigurpálsson trommuleikari og Ragnar Elías Ólafsson bassaleikari. Ekki er að finna neinar upplýsingar um mannabreytingar í sveitinni. Árið 2011 lék Hælsæri aftur á Gærunni um sumarið og um svipað leyti sendi sveitin frá sér plötu samnefnda henni í litlu upplagi, sem kom svo út á tónlistarveitum nokkrum árum síðar – hún inniheldur tuttugu og tvö lög.

Eftir 2011 fór lítið fyrir sveitinni um tíma, hún birtist stöku sinnum á samfélagsmiðlunum með yfirlýsingar um að hún væri enn starfandi en eftir 2017 hefur hún verið mun virkari og eftir 2020 hefur hún leikið töluvert á tónleikum bæði norðan heiða og sunnan s.s. á Eyrarrokks- og Norðurhjararokkhátíðunum sem og á Gauknum. Sveitin er því enn starfandi og virðist ekkert vera að hætta.

Efni á plötum