Spilafífl (1980-82)

Spilafífl

Hljómsveitin Spilafífl starfaði um tveggja ára skeið í upphafi níunda áratugar síðustu aldar, og var hluti af pönk- og nýbylgjusenunni sem þá stóð sem hæst og kom fram í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík. Sveitin sendi frá sér eina smáskífu en hvarf svo af sjónarsviðinu.

Spilafífl var líklega stofnuð haustið 1980 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Jóhann Kristinsson hljómborðsleikari, Örn Hjálmarsson gítarleikari, Sævar Sverrisson söngvari og Birgir Mogensen bassaleikari en Halldór Kristinsson trommuleikari kom svo síðastur inn um vorið 1981, hugsanlega gæti þá hafa verið annar trommari á undan honum. Þá var gítarleikarinn Ágúst Karlsson líklega upphaflega í sveitinni einnig.

Daginn eftir að Halldór gekk til liðs við sveitina lék hún á tvennum tónleikum, annars vegar á útitónleikum í miðbænum og hins vegar á rokktónleikum í Laugardalshöllinni sem báru yfirskriftina Annað hljóð í strokkinn en þar stal gjörningasveitin Bruni BB reyndar senunni. Strax í kjölfarið lék sveitin víða á tónleikum um sumarið, m.a. ásamt Baraflokknum bæði á Akureyri og í Reykjavík en einnig víðar um höfuðborgarsvæðið og nágrenni, t.d. lék sveitin ásamt Utangarðsmönnum á Rokkhátíð í Félagsgarði í Kjós um verslunarmannahelgina – annars var spilavettvangur Spilafífla sá sami og annarra sveita í geiranum, mestmegnis bundinn við Hótel Borg og Félagsstofnun stúdenta.

Spilafífl var í grunninn eins konar nýbylgjusveit en sótti áhrif sín fyrst og fremst til bandarísku sveitarinnar Talking heads og bresku sveitarinnar Basement 5, sveitin var þó á mörkum þess að vera samþykkt af pönk- og nýbylgjusenunni því Sævar, Örn og Jóhann höfðu allir verið viðloðandi ballbransann – t.a.m. í hljómsveitunum Cirkus og Fimm, og töldust því strangt til tekið vera skallapopparar samkvæmt þá nýlegri skilgreiningu, Birgir og Halldór voru hins vegar aðeins yngri og með þá innanborðs hlaut sveitin viðurkenningu senunnar.

Spilafífl tóku upp nokkur frumsamin lög í Stemmu um sumarið en um haustið hætti Jóhann í sveitinni, þá tók við spilamennska í félagsmiðstöðvum og framhaldsskólum en einnig léku þeir félagar á tónleikum til styrktar neytendasamtökunum þar sem þeir frumfluttu lag sem sérstaklega fjallaði um málefni leigjenda og baráttu þeirra við kerfið – það var lagið Talandi höfuð en það ber mjög keim af fyrrnefndri Talking heads. Lagið var síðan tekið upp fyrir kvikmyndina Rokk í Reykjavík og þar birtist sveitin sem hluti af tónlistarsenunni.

Í mars 1982 eða um svipað leyti og Rokk í Reykjavík var frumsýnd hafði nýr liðsmaður gengið til liðs við Spilafífl, hljómborðsleikarinn Einar Pálsson en sveitin hafði þá verið án hljómborðsleikara síðan um haustið á undan, um vorið kom svo út tveggja laga skífa, Playing fool / Sæll sem hafði verið hljóðrituð í Stemmu sumarið á undan en það voru Steinar sem gaf plötuna út, fyrst hafði sveitin leitað til Svavars Gests hjá SG-hljómplötum en hann hafði ekki áhuga á að gefa út efnið. Platan fékk ágæta dóma bæði í Morgunblaðinu og Æskunni en hlaut þó ekki mikla athygli.

Spilafífl störfuðu ekki lengi eftir að platan kom út, sveitin hætti störfum í lok maí og þeir Halldór trommuleikari og Örn gítarleikari gengu í Bodies, Einar hljómborðsleikari fór í Egó og Birgir bassaleikari gekk tímabundið í Killing joke áður en hann hóf svo að spila með Kukli. Þá hafði Sævar söngvari sett á stofn plötubúðina Stuð og lagði sönginn á hilluna tímabundið.

Efni á plötum