Afmælisbörn 16. júní 2022

Olufa Finsen

Þrjú afmælisbörn dagsins koma við sögu Glatkistunnar að þessu sinni, þau eru öll látin:

Fyrst ber að nefna tónlistarfrumkvöðulinn Olufu Finsen (1836-1908) en hún var landshöfðingjafrú sem bjó hérlendis um tveggja áratuga skeið. Á þeim tíma fór hún mikinn í íslensku tónlistarlífi, stofnaði hér kóra og æfði á heimili sínu, kenndi tónlist og varð aðal hvatamaður þess að Jónas Helgason síðar Dómorganisti fór til orgelnáms. Olufa samdi einnig tónlist.

Emil Thoroddsen tónskáld (1898-1944) átti einnig afmæli á þessum degi. Emil lærði á píanó en fór síðan erlendis og menntaðist í öðrum listum. Hann var þó þekktastur fyrir tónverk sín, og þar má helst nefna Hver á sér fegurra föðurland við ljóð Huldu. Emil lék inn á nokkrar plötur sem undirleikari og einnig gaf Karlakór Reykjavíkur út plötu með lögum eftir hann.

Síðastan skal hér telja gítarleikarann Kristján Eldjárn (f. 1972) en hann féll frá aðeins þrítugur að aldri árið 2002. Kristján hafði starfað með nokkrum hljómsveitum s.s. Fyrirbæri, Dvergaflokknum og Helvík, hann lauk gítar- og kennaraprófi í Finnlandi en starfaði mest hér heima við kennslu og gítarleik eftir nám. Leik hans er að finna á fjölmörgum plötum og tíu árum eftir lát hans kom út minningarplata um hann, þar sem heyra má tónleikaupptökur með honum. Einnig kom út plata árið 2003 sem hafði að geyma upplestur Þórarins föður hans við undirleik Kristjáns.

Vissir þú að pönksveitin Q4U hafði leikið á yfir tíu tónleikum áður en hún hélt sína fyrstu hljómsveitaræfingu?