Olufa Finsen (1836-1908)

Olufa Finsen1

Olufa Finsen

Olufa Finsen (fædd Bojsen) telst vera frumkvöðull í íslensku tónlistarlífi, líklega fyrst kvenna.

Olufa fæddist 1936 (sumar heimildir segja 1835) í Danmörku, hún hlaut einhvers konar tónlistaruppeldi í formi söng- og hljóðfæranáms, giftist síðan Hilmari Finsen og fluttist með honum til Íslands þar sem hann gegndi embætti stiftamtsmanns og síðar landshöfðingja hér á landi. Hér á landi bjuggu þau á árunum 1865-83.

Frú Finsen lét hérlendis snemma til sín taka í mennta- og heilbrigðismálum, stóð m.a. fyrir stofnun fyrsta kvennaskóla á Íslandi og byggingu sjúkrahúss, og hafði sem fyrr segir tónlistarlegan bakgrunn sem nýttist henni vel. Hún stofnaði og æfði blandaðan kór á heimili sínu, sem að öllum líkindum var fyrsti slíkur kór sinnar tegundar á Íslandi, hún kenndi einnig söng og aðra tónlist og var hvatamaður þess að Jónas Helgason (síðar Dómkirkjuorganisti og forystumaður í sönglist) fór til orgelnáms, hún mun líka hafa kennt Sveinbirni Sveinbjörnssyni tónskáldi og Önnu Pjeturs píanókennara fyrstu skrefin á sínum ferli.

Olufa hafði einnig fengist við að semja tónlist áður en hún kom til Íslands og hafði samið m.a. tónverk sem flutt var við jarðarför Friðriks 7. Danakonungs, en hún var af hástétt og tengd konungsfjölskyldunni með einhverjum hætti. Við útför Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur konu hans í Dómkirkjunni árið 1880, flutti lítill kór (líklega tvöfaldur kvartett) kantötu eftir hana við ljóð Matthíasar Jochumssonar og vilja sumir meina að það sé sama verk og flutt hafði verið við útför Danakonungs, með viðbótum. Olufa stjórnaði sjálf kórnum, hafði annast æfingar, og stýrði einnig tveimur einsöngvurum, Ástu Hallgrímsson og Steingrími Johnsen sem sungu sólókaflana í verkinu. Það mun hafa verið í fyrsta skipti sem einsöngur var sunginn við jarðarför á Íslandi.

Áhrif Olufu Finsen á söngmennt og tónlist almennt hér á landi teljast því þónokkur þótt engir minnisvarðar hafi verið reistir um þessa merku konu. Til að mynda hefur aðeins hluti kantötunnar eftir hana varðveist.

Olufa Finsen lést 1908 en hún hafði þá átt í veikindum um tíma.