Emil Thoroddsen (1898-1944)

Emil Thoroddsen1

Emil Thoroddsen

Emil Thoroddsen var þekkt tónskáld og eftir hann liggur m.a. lagið Hver á sér fegra föðurland, sem er ein af ástsælustu þjóðernisperlum landsins. Hann var ennfremur píanóleikari, leikritahöfundur og listmálari svo dæmi séu tekin um listhæfi hans en því miður en því miður liggur minna eftir hann en ella þar sem  hann féll frá á miðjum aldri.

Emil Þórður Þórðarson Thoroddsen fæddist 1898 í Keflavík en fluttist ungur til Reykjavíkur, tónlistarhæfileikar hans komu fljótlega í ljós og hann var farinn að leika á píanó áður en hann náði tíu ára aldri.

Hann hafði líka listhæfileika á öðrum sviðum enda af miklum listaættum, föðurafi hans var Jón Thoroddsen rithöfundur og móðurafi Pétur Guðjohnsen organisti, auk þess voru honum náskyldir Jón Leifs, Bjarni Böðvarsson og Skúli Halldórsson svo dæmi séu tekin.

Emil lærði á píanó og eftir stúdentspróf lagði hann land undir fót og fór til Danmerkur í nám m.a. í listasögu og málaralist, og síðar til Þýskalands. Hann kom aftur heim 1925, gerðist þá hljómsveitarstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur, lék víða á tónleikum og gat sér gott orð fyrir, og þegar Ríkisútvarpið tók til starfa 1930 varð hann píanóleikari þess og var í útvarpshljómsveitinni. Um það leyti stimplaði hann sig líka inn sem tónskáld en (ókláruð) kantata hans lenti í öðru sæti í samkeppni sem haldin var í tilefni af Alþingishátíðinni (1930). Þetta sama ár, 1930 kom út tveggja laga 78 snúninga plata með píanóleik hans en það voru lög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Emil kom víða við á sínum píanóferli, til að mynda var hann meðleikari Karlakórs Reykjavíkur á ferðum kórsins erlendis og lék ennfremur á plötum kórsins og annarra á þessum tíma. Hann kenndi einnig á píanó.

Fleiri viðurkenningar hlaut Emil fyrir tónsmíðar sínar, fyrst má nefna verðlaun fyrir sjómannalagið Íslands hrafnistumenn (1939) en hann verður þó þekktastur fyrir lag sitt Hver á sér fegra föðurland sem hann samdi við hluta ljóðaflokks Huldu (Unnar Benediktsdóttur Bjarklind) en hún hafði fengið viðurkenningu lýðveldishátíðarinnar 1944 fyrir ljóðaflokkinn sem bar reyndar heitið Söngvar helgaðir Þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944.

Hjá útvarpinu útsetti Emil syrpur þjóðlaga og sönglaga íslenskra tónskálda fyrir hljómsveit stofnunarinnar, alls um áttatíu syrpur. Einnig samdi hann revíur, söngleiki og lög fyrir leikrit þannig að hann kom víða við í listsköpun sinni.

Hann var ennfremur einn af stofnendum Tónlistarfélags Reykjavíkur, starfaði um tíma sem gagnrýnandi hjá Morgunblaðinu, fyrst sem myndlistagagnrýnandi en síðar reit hann um tónlist hjá blaðinu.

Emil hafði ungur fengið berkla og var fremur heilsulítill, sumarið 1944 stuttu eftir lýðveldishátíðina veiktist hann og lést á sjúkrahúsi nokkrum dögum síðar, aðeins 46 ára gamall.

Mörg laga Emils hafa komið út á hljómplötum, og er þar helst að geta á plötum karlakóra og einsöngvara. 1975 gáfu SG-hljómplötur út plötu með söng Karlakórs Reykjavíkur þar sem kórinn söng lög Emils (og Björgvins Guðmundssonar).

Efni á plötum