Sævar Sverrisson (1957-)

Sævar Sverrisson 1977

Söngvarinn Sævar Sverrisson hefur vægast sagt komið víða við á söngferli sínum, sungið með hljómsveitum af ólíku tagi og sungið inn á plötur annarra listamanna en hefur af því er virðist aðeins sent frá sér eitt lag í eigin nafni.

Sævar er fæddur vorið 1957 og var innan við tvítugt þegar hann hóf að syngja með hljómsveitum, Lena var líklega fyrsta hljómsveit hans og síðan tók Drift við en nafni þeirrar sveitar var breytt í Cirkus sumarið 1976. Sú sveit átti eftir að starfa með nokkrum hléum næstu árin með miklum mannabreytingum, fyrst um sig lék sveitin funk með diskóívafi en síðar venjulega balltónlist og naut reyndar nokkurra vinsælda þótt ekki gæfi sveitin neitt út á plötu.

Í einu þeirra hléa sem Cirkus tók sér fór Sævar við annan mann austur á Norðfjörð til að vinna (sumarið 1977) og gengu þeir þá til liðs við hins goðsagnakenndu sveit Amon Ra og störfuðu með henni um tíma en sú sveit gerði svo tilraun til að gera út frá höfuðborgarsvæðinu. Sævar söng um tíma einnig með hljómsveitinni Reykjavík í einu hléa Cirkusar (1978) en það var svo haustið 1980 sem sögu Cirkusar lauk endanlega og var hljómsveitin Fimm stofnuð upp úr henni, Fimm varð eiginlega hlekkurinn milli Cirkusar og Spilafífla en Spilafífl var stofnuð upp úr Fimm ekki löngu síðar.

Spilafífl vakti nokkra athygli á sínum tíma, hún lék nýbylgjurokk svolítið í anda Talking heads og lagið Talandi höfuð var einmitt nokkuð þekkt með sveitinni þegar það birtist í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík. Sveitin náði að senda frá sér eina tveggja laga skífu en hætti sumarið 1982 fljótlega eftir að hún kom út. Heimild segir að Sævar hafi tekið við af Bubba Morthens í Egó nokkru eftir þetta en sú sveit var þá á síðustu metrunum en það hefur ekki fengist staðfest, hins vegar var hann í skammlífri hljómsveit sem tók við af Egó og gekk undir nafninu Óþekkt andlit og í kjölfarið annarri slíkri (reyndar ásamt Bubba og fleirum) sem bar nafnið Mögulegt óverdós – þar mun Sævar hafa leikið á trommur en sú sveit skartaði tveimur trommuleikurum.

Sævar með Spilafíflum

Sævar lagði sönginn á hilluna um tíma eftir þetta, hann stóð í plötubúðarrekstri ásamt Jens Kr. Guðmundssyni með Stuð-búðina en hún lagði áherslu á rokk, nýbylgju og jaðartónlist, þá starfaði hann einnig um tíma fyrir SATT og var reyndar umboðsmaður Bubba Morthens um skeið árið 1983 og 84. Heimildir herma að Sævar hafi síðan flutt norður á Ólafsfjörð en hann átti ættir þangað að rekja og bjó þar um tíma.

Ekki liggur fyrir hvenær Sævar kom aftur suður en undir lok níunda áratugarins kom hann við sögu á nokkrum plötum Bubba Morthens þar sem hann söng bakraddir, hann hafði einnig eitthvað sungið með hljómsveitinni Óvæntri ánægju þegar hann kynntist Rafni Jónssyni tónlistarmanni, saman stofnuðu þeir ásamt fleirum hljómsveitina Galíleó sem átti eftir að starfa næstu árin og átti fáein lög á Bandalaga-safnplötum – þeirra á meðal var lagið Syngjum okkur hás sem naut nokkurra vinsælda. Rafn átti eftir að senda frá sér tvær sólóplötur snemma á tíunda áratugnum og á þeim söng Sævar nokkur lög, m.a. lagið Andartak af samnefndri plötu en það varð mjög vinsælt árið 1991 og kom honum nokkuð á kortið. Lagið Ég vil springa út á plötu Rafns – Ef ég hefði vængi (1993) fékk einnig nokkra athygli.

Í kjölfarið varð feikimikið að gera hjá Sævari, Galíleó starfaði allt til ársins 1995 og samstarf þeirra Rafns varð einnig heilmikið í tengslum við útgáfur platna hans, t.d. var sett saman hljómsveit sem gekk undir nafninu Rabbi og co til að fylgja tónlistinni eftir. Þá var Amon Ra endurreist og tók Sævar lagið með þeirri sveit auk þess sem hann var eitthvað að koma fram m.a. á blúskvöldum í höfuðborginni, Sævar söng svo á plötunni Birtir af degi: Lög við ljóð eftir Björn Stefán Guðmundsson frá Reynikeldu, árið 1991.

Sævar Sverrisson

Árið 1996 kom Sævar fram með nýja sveit sem bar nafnið Twist & bast en sú sveit var af allt öðrum meiði en fyrri sveitir hans, þessi sveit lagði áherslu á frumrokkið og lék ábreiðutónlist frá sjötta áratugnum en ein plata kom út með henni. Það sama ár (1996) kom fyrsta og eina lag Sævars sem sólólistamaður út á safnplötunni Gæðamolar, það bar titilinn Brostu en lagið vakti ekki mikla athygli. Hann virðist hafa verið kominn norður aftur undir lok aldarinnar og var lítið áberandi í tónlistinni, kom lítillega fram með pöbbasveitinni Sælusveitinni og söng svo inn á fáeinar plötur s.s. á styrktarsafnplötunni Maður lifandi, á plötu með keppnislögum úr Sæluvikukeppni Skagfirðinga og svo á plötu með tónlistinni úr kvikmyndinni Stikkfrí þar sem hann söng Ég held ég gangi heim sem Valgeir Guðjónsson hafði áður gert vinsælt í tengslum við bjórvorið 1989.

Á nýrri öld var Sævar nokkuð í tónlistinni fyrir norðan, var að leika pöbbatónlist með Stulla (Sturlaugi Kristjánssyni) frá Siglufirði sem var ein aðalsprauta Miðaldamanna en Sævar söng um tíma með þeirri sveit einnig og á plötu sem sveitin sendi frá sér 2007. Hann starfaði einnig um skamma hríð með hljómsveitunum, Tvöföldum áhrifum og Roðlausu og beinlausu og söng reyndar inn á þrjár plötur með síðarnefndu sveitinni. Þá söng hann einnig á plötu Önnu Soffíu Halldórsdóttur – Í faðmi mínum (2003) og á jólaplötunni Jólasveinarnir okkar (1998)

Sævar hefur lítið sungið eftir 2010 en lög eins og Talandi höfuð, Andartak og jafnvel Ég held ég gangi heim og Ég vil springa út heyrast enn stöku sinnum leikin á ljósvakamiðlunum en ofangreind lög eru einmitt ágæt dæmi um fjölbreytileika þeirrar tónlistar sem Sævar hefur komið að.