Sælgætisgerðin (1994-97)

Sælgætisgerðin

Sextettinn Sælgætisgerðin var sýrudjass- og funksveit sem spratt upp úr tónlistarskóla FÍH haustið 1994 en sveitin innihélt sex meðlimi sem þá voru í námi við skólann og áttu eftir að gera góða hluti í íslensku tónlistarlífi.

Sælgætisgerðin átti sér heimavöll á Glaumbar við Tryggvagötu í hartnær eitt ár þar sem sveitin spilaði sig saman öll sunnudagskvöld og smám saman spurðist út að þar væri á ferð efnileg sveit sem spilaði og útsetti sjálf acid jazz og funk frá sjöunda og áttunda áratugnum. Meðlimir sveitarinnar voru þeir Ásgeir Jón Ásgeirsson gítarleikari, Jón Ómar Erlingsson bassaleikari, Birgir Nielsen trommuleikari, Snorri Sigurðarson trompetleikari, Samúel Jón Samúelsson básúnuleikari og Steinar Sigurðarson saxófónleikari.

Sveitin lék sem fyrr segir vikulega á Glaumbar og fyrir fullu húsi, og þegar það spurðist út að þeir félagar hygðust hljóðrita efni á plötu á tónleikum þar haustið 1995 var stappað út úr dyrum. Þar var söngvarinn Bergsveinn Arilíusson (Sóldögg) með þeim en stundum komu einmitt gestasöngvarar fram með sveitinni. Platan kom svo út í nóvember undir titilinum Acid jazz & funk og var gefin út af KISA HF. Hún hlaut góðar viðtökur, seldist prýðilega og lagið Mo better blues (sem var reyndar eina lag plötunnar sem ekki var hljóðritað á fyrrgreindum tónleikum) naut mikilla vinsælda í kringum jólin 1995, komst ofarlega á Íslenska listann og var á honum í fjölmargar vikur. Platan hlaut aukinheldur ágæta dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í DV og Helgarpóstinum, eitt frumsamið lag var á plötunni.

Í kjölfar þessara miklu en óvæntu vinsælda þurfti sveitin að anna eftirspurninni og spilaði miklu víðar en á Glaumbar, einkum var Sælgætisgerðin eftirsótt á skólaböllum framhaldsskólanna og á tímabili lék sveitin margoft í viku bæði á tónleikum og dansleikjum. Þá kom sveitin fram í hálftíma sjónvarpsþætti sem sýndur var í Ríkissjónvarpinu um jólin.

Sælgætisgerðin á sviði Glaumbars

Eftir áramótin 1995-96 fór nokkuð minna fyrir Sælgætisgerðinni, ráðgert hafði verið að sveitin myndi fara í að semja eigið efni og gefa út – það var að minnsta kosti gefið út í blaðaviðtölum, en af því varð ekki. Um vorið 1996 varð sveitin nokkuð áberandi á nýjan leik eftir fremur rólega tíð framan af ári og þá var ráðgert að lag með henni kæmi út á safnplötu um sumarið en af því virðist heldur ekki hafa orðið. Reyndar fór mjög lítið fyrir Sælgætisgerðinni um sumarið og hún lék ekki fyrr en síðsumars í fáein skipti áður en hún fór af því er virðist í pásu um veturinn – hér er giskað á að ástæðan hafi verið tónlistarnám meðlima sveitarinnar erlendis.

Sælgætisgerðin birtist aftur um vorið 1997 eftir langt hlé og lék þá í fáein skipti á Astró en hvarf af því búnu á nýjan leik og var sögu sveitarinnar þar með lokið, hún hefur þó komið fram a.m.k. í tvígang síðan – annars vegar 2003 á Gauki á Stöng og 2004 á Glaumbar þegar staðurinn fagnaði 15 ára afmæli.

Meðlimir Sælgætisgerðarinnar hafa allir gert það gott í tónlistinni, blásararnir þrír eru t.a.m. meðal þeirra þekktustu í geiranum í dag, fljótlega eftir að sveitin hætti léku þeir í hljómsveitinni Súper 7 og hafa síðan einnig starfað með sveitum eins og Casino, Jagúar, Stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar, Stórsveit Reykjavíkur og mörgum öðrum. Jón Ómar bassaleikari gekk fljótlega til liðs við Ásgeir gítarleikara í hljómsveitina Sóldögg, og Birgir trommuleikari sem áður hafði verið einn Vina vorra og blóma fór fljótlega í Land og syni en allir þrír hafa verið áberandi í poppinu.

Efni á plötum