Sjómannakórinn á Ísafirði (1938-46)

Sjómannakórinn á Ísafirði

Karlakór var starfræktur á Ísafirði fyrir miðja síðustu öld undir nafninu Sjómannakórinn á Ísafirði en eins og nafnið gefur til kynna var hann eingöngu skipaður sjómönnum og var sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi.

Kórinn kom að öllum líkindum fyrst fram á fyrsta sjómannadeginum sem haldinn var hátíðlegur, í júní 1938 en síðan þá hefur verið haldið upp á þennan dag fyrstu helgina í júní ár hvert. Högni Gunnarsson stjórnaði kórnum líklega allt til ársins 1945 en árið 1946 eru bæði Kjartan Ólafsson og Ásgeir Ingvarsson sagðir stjórnendur hans, þá voru um tuttugu og fimm kórmeðlimir í honum. Fastur punktur í söngstarfi kórsins var að syngja á sjómannadaginn, bæði í sjómannadagsmessunni og svo á kvöldskemmtun en kórinn mun einnig hafa sungið við annars konar tækifæri, t.d. fór hann til Bolungarvíkur sumarið 1946 og söng á styrktartónleikum.

Sjómannakórinn á Ísafirði mun hafa starfað til 1946 en sumarið 1962 virðist sem tilraun hafi verið gerð til að endurvekja kórstarfið.