Cor (1997-2000)

Hljómsveitin Cor frá Flateyri starfaði í nokkur ár vestra og varð nokkuð þekkt fyrir að leika annars vegar undir Popppassíu sem Lýður Árnadóttir læknir á Flateyri hafði sett saman fyrir páskahátíðina 1999, og hins vegar á Rollings stones kvöldum á Vestfjörðum.

Cor var stofnuð 1997 og var Vagninn á Flateyri fljótlega eins konar heimavöllur sveitarinnar, meðlimir sveitarinnar voru þeir Ásgeir Guðmundsson söngvari, Hlynur Kristjánsson bassaleikari, Haraldur Hjálmarsson hljómborðsleikari, Georg Rúnar Ragnarsson trommuleikari og Halldór Gunnar Pálsson gítarleikari.

Sem fyrr segir lék sveitin í popppassíu Lýðs Árnasonar en hún var flutt um páskana í Flateyrarkirkju 1999, og um svipað leyti fóru þeir félagar að koma fram á svokölluðum Stones-kvöldum á Flateyri og Ísafirði þar sem þeir léku tónlist The Rollings stones, stundum ásamt Ólafi Helga Kjartanssyni þáverandi sýslumanni á Ísafirði. Það var á slíku kvöldi á Vagninum sem Cor komst næst því að ná verulegri frægð en þá hafði sést til Micks Jagger á Ísafirði og héldu þá ýmsir að hann myndi gera sér ferð gegnum göngin til Flateyrar til að sjá sveitina spila, og jafnvel taka lagið með þeim. Úr því varð þó ekki og um svipað leyti og sveitin var að leika sína lokatóna lagði Jaggerinn úr höfn á Ísafirði með snekkju sem hann ferðaðist með, samkvæmt frétt í einu blaðanna en vestfirskir fréttaritarar helstu fjölmiðla landsins fylgdust vel með málinu.

Sveitin starfaði líklega fram á haustið 1999 en kom saman um páskana 2000 þegar passía Lýðs Árnasonar var flutt í Bústaðakirkju í Reykjavík. Hluti sveitarinnar hafði þá komið við sögu Karlrembuplötunnar sem Lýður kom einmitt að, og kom út 1999.