Cirkus (1976-80)

Cirkus3

Cirkus

Hljómsveitin Cirkus var nokkuð áberandi í tónlistarlífi borgarinnar á síðari hluta áttunda áratugar 20. aldar en sveitin náði þó aldrei að verða ein þeirra stóru, sem án efa má rekja til þess að hún sendi aldrei frá sér efni þrátt fyrir að vinna og flytja frumsamda tónlist. Tónlist sveitarinnar mátti skilgreina sem eins konar funk með diskóívafi.

Hljómsveitin var stofnuð snemma árs 1976 og starfaði reyndar fyrstu mánuðina undir nafninu Drift en um mitt sumar var nafni hennar breytt í Cirkus, fólk og fjölmiðlar áttu reyndar erfitt með að meðtaka nafn hennar og stundum var hún nefnd Circus eða jafnvel Sirkus.

Upphaflega var sveitin skipuð þeim Sigurði Ragnari Lúðvíkssyni söngvara, Davíð Karlssyni trommuleikara, Helga Magnússyni hljómborðsleikara, Erni Hjálmarssyni gítarleikara og Þorvarði Hjálmarssyni bassaleikara en þeir tveir síðast töldu eru bræður. Miklar mannabreytingar áttu eftir að verða í sveitinni og þær hófust strax um haustið þegar Sævar Sverrisson söngvari tók við af Sigurði, um áramótin 1976-77 bættist síðan sjötti meðlimurinn í sveitina en það var Guðbrandur Einarsson hljómborðs- og trompetleikari. Hann starfaði þó ekki lengi með Cirkus því að um vorið 1977 hætti hann.

Litlu síðar bárust þær fréttir reyndar að sveitin væri hætt störfum en þá höfðu Davíð trommuleikari og Þorvarður bassaleikari flutt úr landi, Helgi hljómborðsleikari hætti ennfremur í kjölfarið þannig að Sævar söngvari og Örn gítarleikari voru þá orðnir tveir eftir. Aldrei var þó beinlínis gefið út dánarvottorð og síðla árs birtist sveitin aftur á sjónarsviðinu með óbreyttan mannskap utan þess að Guðbrandur var ekki með. Áherslubreytingar höfðu þá orðið á tónlistinni sem var orðin djass-skotnari en áður en sveitin lagði nú einnig meiri áherslu á frumsamið efni sem ekki hafði verið áður. Ekki náði Cirkus þó að stilla sig almennilega saman áður en sveitin fór aftur í pásu eftir áramótin 1977-78.

Eftir að hún skreið aftur úr híðinu um vorið var liðsskipanin nokkuð breytt, þeir bræður Örn og Þorvarður ásamt Sævari söngvara voru enn í sveitinni en nýir liðsmenn voru Árni Sigurðsson gítarleikari og söngvari, Jóhann Kristinsson hljómborðsleikari og Sigurður Reynisson trommuleikari.

Þegar hér var komið sögu hafði Cirkus alveg kúvent hvað tónlistina varðaði og á þessu þriðja skeiði hennar var stuð- og danstónlist aðalmálið. Sigurður trommuleikari staldraði ekki lengi við því nokkrum vikum síðar vék hann fyrir nýjum trymbli, Ingólfi Sigurðssyni. Um mitt sumar urðu enn breytingar á sveitinni þegar hún varð fastráðin í Klúbbnum en þá hætti Árni söngvari og tók Linda Gísladóttir við sönghlutverkinu en hún söng nú ásamt Sævari. Ennfremur bættist hljómborðsleikarinn Nikulás Róbertsson í hópinn þannig að nú var Cirkus orðin sjö manna hljómsveit. Ekki stóð það þó lengi því enn urðu breytingar þegar Linda og Ingólfur hættu um haustið, en Davíð Karlsson fyrsti trymbill sveitarinnar kom inn aftur. Enginn kom í stað Lindu og var hún því nú skipuð sex manns.

Cirkus[1978b]

Cirkus 1978

Þegar sveitin hætti enn einu sinni vorið eftir (1979), héldur flestir að nú væri endanlega komið að endalokum hennar en svo varð þó ekki því ári síðar, sumarið 1980 kom hún enn einu sinni fram á sjónarsviðið en það reyndust einungis vera dauðateygjur og síðan hefur ekkert til hennar spurst. Ekki finnast upplýsingar um hverjir skipuðu hana á þessu síðasta skeiði eða hvernig tónlist hennar hljómaði þá.

Hljómsveitin Fimm (5) var stofnuð upp úr leifum Cirkus en þrír meðlimir sveitarinnar komu að þeirri hljómsveit sem varð ekki langlíf en upp úr þeirri sveit spratt hins vegar upp önnur, Spilafífl sem átti eftir að gefa út efni og birtast í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík. Tónlist þeirrar sveitar var þó allt annars eðlis.
Cirkus starfaði í á fjórða ár, hugði á plötuútgáfu og innihélt allt í allt þrettán manns sem er nokkuð vel af sér vikið á ekki lengri tíma. Sveitina skorti þó líklega stöðugleika til að geta unnið úr frumsömdu efni sínu.