Hydrus (2003-05)

Hydrus

Hljómsveitin Hydrus starfaði í Garðabænum í upphafi aldarinnar, á árunum 2003 til 2005 hið minnsta en þá tók sveitin þrívegis þátt í Músíktilraunum. Um var að ræða rokksveit.

Hydrus kom fyrst fram á sjónarsviðið vorið 2003 þegar sveitin var meðal þátttökusveita í Músíktilraunum, þar var hún skipuð þeim Arnari Hilmarssyni gítarleikara og söngvara, Gauta Rafni Ólafssyni trommuleikara, Árna Guðjónssyni bassaleikara og Bjarna Þór Jenssyni gítarleikara og söngvara. Sveitin komst ekki áfram í úrslit keppninnnar.

Ekkert heyrðist til sveitarinnar fyrr en á nýju ári, 2004 þegar hún lék á tónleikum í byrjun árs í Hinu húsinu og svo aftur nokkrum vikum síðar, og svo mættu þeir félagar aftur til leiks í Músíktilraunum með sömu liðsskipan. Hydrus hafði þó ekki erindi sem erfiði því sveitin komst ekki áfram í úrslit keppninnar og reyndar heldur ekki í þriðja skiptið sem hún tók þátt vorið 2005 og var þá fullreynt með tilraunirnar. Sveitin var þá enn skipuð sömu meðlimum en Árni bassaleikari lék þá reyndar einnig á píanó.

Svo virðist sem Hydrus hafi ekki starfað eftir Músíktilraunir 2005.