Stjánar (1992-93)

Stjánar

Hljómsveitin Stjánar vakti nokkra athygli á Akureyri á fyrri hluta tíunda áratugarins en sveitin sem var skipuð tónlistarmönnum á menntaskólaaldri var talsvert áberandi um tíma í tónlistalífi bæjarins.

Sveitin kom fram á sjónarsviðið vorið 1992 þegar hún lék á tónleikum en hún spilaði svo töluvert um sumarið fyrir norðan. Það var svo síðari part vetrar 1993 sem Stjánarnir tóku þátt í hinni árlegu hljómsveitakeppni Menntaskólans á Akureyri, Viðarstauk sem þá var haldin í tíunda sinn en þeir félagar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu þá keppni og hlutu í verðlaun nokkra hljóðverstíma – ekki liggur fyrir hvort sveitin nýtti sér þá tíma. Örfáum vikum síðar voru Stjánar svo meðal þátttökusveita í Músíktilraunum Tónabæjar en komst þar reyndar ekki í úrslit, þá var sveitin skipuð þeim Heimi Hlöðverssyni hljómborðsleikara, Matthíasi Stefánssyni gítarleikara, Orra Einarssyni trommuleikara, Atla Ólafssyni bassaleikara og Rúnari Þór Snorrasyni söngvara. Óljóst er hvort sveitin var alla tíð skipuð sömu fimmmenningunum.

Stjánar virðast hafa hætt störfum fljótlega eftir Músíktilraunirnar.