Svörtu kaggarnir (1990-94)

Svörtu kaggarnir

Hljómsveitin Svörtu kaggarnir var rokkabillýsveit starfrækt á Akureyri og var nokkuð virk á tónleikasviðinu um tíma þann tíma er sveitin starfaði á fyrri hluta tíunda áratugarins.

Svörtu kaggarnir voru stofnaðir síðsumars 1990 á Akureyri en sveitin var stofnuð upp úr annarri sveit af þeim Kristjáni Ingimarssyni bassaleikara og söngvara og Konráði Vilhelm Sigursteinssyni gítarleikara en aðrir liðsmenn voru þeir Guðbrandur Guðlaugsson gítarleikari og Hjalti Jónsson trommuleikari. Sveitinni hélt illa á trommuleikurum og fljótlega um haustið tók Arnar Tryggvason við af Hjalta. Sveitin spilaði töluvert um haustið og var farin að vekja nokkra athygli í tónlistarlífinu á Akureyri. Framan af ári 1991 fór þó lítið fyrir Svörtu köggunum en um vorið rofaði aftur til í tónleikahaldi sveitarinnar og m.a. fór hún suður til Reykjavíkur og lék á Tveimur vinum, á Akureyri lék sveitin mest á stöðum eins og 1929 og Dynheimum og þá yfirleitt ásamt fleiri sveitum. Sveitin var mjög virk um sumarið 1991 og lék þá m.a. í Húnaveri um verslunarmannahelgina og svo virðist sem Kristján Þeyr Magnússon hafi þá bæst í hópinn sem söngvari auk þess sem Valur Halldórsson hafði tekið við trommuleiknum. Um haustið lék sveitin svo á stórtónleikum í KA heimilinu ásamt Stjórninni og GCD auk akureyskra sveita.

Í kjölfarið fór minna fyrir Svörtu köggunum, hún lék t.a.m. lítið um veturinn 1991-92, lék svo um vorið og í lok ársins og svo í örfá skipti eftir það. Sveitin lék líklega í síðasta sinn í kringum áramótin 1993-94 og hafði þá liðsskipan hennar eitthvað breyst.