Svörtu ekkjurnar (1982-84)

Tvær af Svörtu ekkjunum

Kvennahljómsveit sem bar nafnið Svörtu ekkjurnar starfaði á Akureyri á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar, sveitin kom töluvert fram á tónleikum í annars nokkuð líflegu tónlistarlífi fyrir norðan á þessum tíma og þess má geta að þegar sveitin keppti í hljómsveitakeppninni í Atlavík um verslunarmannahelgina 1983 þá voru sex aðrar sveitir frá Akureyri í keppninni. Þeirra á meðal voru Skriðjöklar en sveitirnar tvær leigðu rútu fyrir umrædda verslunarmannahelgi til að fara austur í Atlavík og seldu síðan aðgang að henni.

Svörtu ekkjurnar mun hafa verið stofnuð rétt fyrir jólin 1982 og voru meðlimir sveitarinnar þær Anna Lísa Baldursdóttir trommuleikari, Jonna Jónborg Sigurðardóttir söngkona, Bergþóra Stefánsdóttir bassaleikari, Vala Valdimarsdóttir gítarleikari og Þórunn Óttarsdóttir gítarleikari. Arnhildur Valgarðsdóttir kom lítillega við sögu sveitarinnar en hún leysti Jonnu Jónborgu söngkonu af hólmi þegar sú var ólétt. Ekkjurnar léku eins konar pönkspuna að sögn, frumsamið efni og var eitthvað af því hljóðritað í Stúdíó Bimbó en þær upptökur eru nú glataðar.

Sveitin starfaði líklega eitthvað fram á árið 1984.