
Svörfuður
Karlakórinn Svörfuður starfaði á árunum 1944 til 51 í Svarfaðardalnum og var á þeim tíma ómissandi partur af sönglífi Svarfdælinga enda söng kórinn nokkuð oft í heimasveitinni og á Dalvík. Ekki er þó víst að kórinn hafi starfað alveg samfleytt.
Svörfuður var stofnaður haustið 1944 á fundi í þinghúsinu á Grund í Svarfaðardal en kórinn átti yfirleitt eftir að æfa þar, fyrir suma meðlimi kórsins (sem mest innihélt um tuttugu söngmenn) var langur vegur til æfinga eða allt að 20 kílómetra leið sem menn komu gangandi eða á skíðum því vegasamgöngur voru ekki komnar á þann stað sem síðar varð.
Sigurður Ólafsson frá Syðra-Holti var stjórnandi Svarfaðar alla tíð sem kórinn var starfræktur en hann starfaði fram á vor 1951, ári síðar var söngfélagið Sindri stofnað sem var eins konar undanfari Karlakórs Dalvíkur.