Stúdentakórinn [1] (1925-63)

Stúdentakórinn / Söngfélag stúdenta 1930

Sú umfjöllun sem hér fer á eftir um hinn svokallaða Stúdentakór er í raun umfjöllun um fjölmarga kóra sem störfuðu innan hins akademíska samfélags stúdenta hér á landi en það kórastarf var langt frá því að vera samfleytt þó svo að svo virðist vera við fyrstu sýn – í sem allra stysta máli mætti halda því fram að nýr kór hafi verið stofnaður nánast á hverju skólaári.

Segja má að Sigfús Einarsson tónskáld og tónlistarfrömuður hafi árið 1925 verið hvatamaður að stofnun söngfélags innan háskólasamfélagsins sem þá var ungt og án allra hefða, en Sigfús hafði stjórnað kór íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn þar sem hann hafði verið við nám laust eftir aldamótin 1900, hann hafði sagt frá því starfi og nægur áhugi myndaðist til að hægt væri að stofna kór (karlakór). Háskóli Íslands hafði verið stofnaður árið 1911 og með tilkomu hans hafði hinn svokallaði Garðstyrkur fallið niður en það var námsstyrkur sem íslenskum stúdentum bauðst í Kaupmannahöfn og þ.a.l. snarfækkaði  Íslendingum þar í námi og félagslíf íslenskra stúdenta færðist hingað heim.

Hinn nýi kór undir stjórn Sigfúsar gekk undir ýmsum nöfnum til að byrja með s.s. Söngfélag stúdenta í Reykjavík eða Söngfjelag stúdenta en snemma á öldinni höfðu tvívegis verið stofnaðir skammlífir sönghópar undir því nafni, Stúdentakórinn varð hins vegar það heiti sem festist við kórinn þótt hann hafi líklega ekki haft neitt formlegt heiti. Kórastarf var á þessum tíma ekki komið í jafn fastar skorður og síðar varð, kórar voru því aðeins nokkrir og Stúdentakórinn varð ásamt Karlakór KFUM og Karlakór Reykjavíkur stofnmeðlimur Sambands íslenskra karlakóra sem stofnað var vorið 1928 en þá stóð fyrir dyrum undirbúningur að Alþingishátíðinni 1930 og var stofnun SÍK hluti af því. Stúdentakórinn gegndi því nokkuð stóru hlutverki á Alþingishátíðinni og var þá reyndar einnig hluti af Landskórinu svokallaða, sameiginlegum kór hátíðarinnar sem m.a. söng inn á plötu.

Á þessum fyrstu árin var kórinn á hrakhólum með æfingahúsnæði og æfði víða um bæinn, m.a. í Alþingishúsinu (þar sem Háskóli Íslands var til húsa fyrstu áratugina), Hljómskálanum og Menntaskólanum (áður Lærða skólanum), það var ekki fyrr en löngu síðar sem kórinn fékk inni í háskólabyggingum á Melunum.

Stúdentakórinn 1958

Sigfús Einarsson var fyrsti stjórnandi Stúdentakórsins sem fyrr er getið (frá 1925) en Ólafur Þorgrímsson stjórnaði honum um tíma áður en Páll Ísólfsson tók við og stjórnaði honum í kringum Alþingishátíðina – á þeim tíma voru meðlimir kórsins fjórtán talsins. Í kjölfar Alþingishátíðarinnar var kórinn nokkuð öflugur næstu þrjú ár á eftir, og fór m.a. í tónleikaferð austur á Stokkseyri en þá söng hann undir stjórn Höskuldar Ólafssonar. Eftir það virðist sem kórastarfið hafi lagst niður um nokkurra ára skeið og ekki hafist aftur fyrr en á stríðsárunum en kórinn söng á árunum 1941-43 undir stjórn Hallgríms Helgasonar. Aftur kom þá stutt eyða í starfið en hann var endurvakinn haustið 1944 undir stjórn Þorvaldar Ágústssonar sem hafði í millitíðinni stofnað söngkvartett innan háskólans sem svo varð að tvöföldum kvartett áður en hægt var að kalla hann kór. Næstu tvö árin var kórinn nokkuð virkur og öflugur en á þeim tíma var komin á sú hefð að kórinn syngi á fullveldishátíð háskólans 1. desember – þ.e. ef kórinn var á annað borð starfandi. Rétt er að taka fram að á þessum fyrstu áratugum kórsins var aðeins um að ræða áhuga og frumkvæði nokkurra stúdenta að ræða án þess að háskólastofnunin sjálf kæmi að honum á einhvern hátt, og líklega hafði kórinn aldrei verið stofnaður formlega þrátt fyrir að vera aðili að Sambandi íslenskra karlakóra.

Eftir nokkurra ára hlé birtist Stúdentakórinn á nýjan leik árið 1950 og næstu árin söng hann undir stjórn Carls Billich, á þeim árum virðist sem hann hafi stöku sinnum gengið undir nafninu Háskólakórinn en það var nafn sem síðari tíma kór skólans bar. Sönglífið meðal stúdentanna var í nokkrum blóma þarna og voru um þrjátíu til fjörutíu söngmenn í kórnum um tíma. Aftur lagðist kórastarfið niður rétt um miðjan sjötta áratuginn og tveimur árum síðar var hann endurlífgaður enn einu sinni – að þessi sinni var það Hallgrímur Helgason sem kom að kórnum í annað skiptið en nú titlaður doktorsgráðu og tónskáld. Undir stjórn dr. Hallgríms söng kórinn m.a. í útvarpssal og var þar tekinn upp á segulband og heyrast sumar af þeim upptökum enn leiknar hjá Ríkisútvarpinu, kórinn var um það leyti skipaður sextán söngmönnum en þeim fjölgaði aðeins á næstu árum og þegar Höskuldur Ólafsson tók við kórstjórninni 1958 (í annað sinn) skipuðu kórinn um tuttugu manns. Erfitt var að halda kórastarfinu gangandi, e.t.v. var söngáhuginn innan háskólasamfélagsins ekki ýkja mikill eða þá sem líklegra er að kórastarfið var alltaf í eins konar óvissu og því varla eftirsóknarvert fyrir söngáhugamenn að fara af fullum krafti í kórinn, ekki bætti heldur úr skák að kórnum hélst eðlilega við þessar aðstæður illa á kórstjórnendum. Þannig tók Sigurður Markússon við af Höskuldi árið 1960, Þorkell Sigurbjörnsson leysti hann af ári síðar og svo Róbert A. Ottósson (Robert Abraham) 1962 – á þeim tíma var áhuginn orðinn afar lítill enn og aftur og því þurfti reglulega að fella niður æfingar sökum mannfæðar.

Til að mæta þessu vandamáli var ákveðið að breyta lögum kórsins með þeim hætti að útskrifaðir stúdentar mættu syngja áfram með kórnum en það höfðu þeir ekki mátt áður sem auðvitað olli því að mikil hreyfing var á meðlimum, menn máttu í raun ekki vera í kórnum nema tímabundið. Og hér var ákveðið að taka málið enn fastari tökum og stofna nýjan kór með formlegum hætti sem þá nyti fjárstyrkja frá háskólanum og hefði þar fast hlutverk og skyldur. Og þar með lauk áratuga „basli“ við að halda sönglífinu innan stúdentasamfélagsins með því að Stúdentakórinn hinn fyrri lagði endanlega upp laupana haustið 1963 og nýr kór var stofnaður formlega í kjölfarið undir sama nafni.