Útvarpskórinn (1931-45 / 1947-50)

Útvarpskórinn hinn fyrri

Þegar talað er um Útvarpskórinn má segja að um tvo aðskilda kóra sé að ræða en tveggja ára hlé var á milli þess sem þeir störfuðu.

Útvarpskórinn hinn fyrri var stofnaður fljótlega eftir að Ríkisútvarpið hóf göngu sína en hans er fyrst getið í fjölmiðlum í febrúar 1931. Jón Þórarinsson var að öllum líkindum stofnandi Útvarpskórsins og aðal hvatamaður að stofnun hans en óskir áhugafólks úr röðum útvarpshlustenda áttu þar einnig stóran hlut að máli.

Sigurður Þórðarson var stjórnandi Útvarpskórsins í upphafi en hann var þá meðal helstu kórstjórnanda landsins og stýrði t.d. Karlakór Reykjavíkur um árabil. Sigurður mun þó ekki hafa verið lengi við stjórnvölinn því Páll Ísólfsson kom síðan til sögunnar og varð stjórnandi kórsins þar til yfir lauk. Í lokin mun Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari (stjórnandi Útvarpshljómsveitarinnar) eitthvað hafa komið að stjórnun hans en það var um það leyti sem starfsemi Útvarpskórsins var að leggjast af, hverjar sem ástæðurnar hafa verið. Það mun hafa verið líklega 1944 eða 45.

Hvergi er getið um viðtökur sem Útvarpskórinn hinn fyrri hlaut eða hvernig efnisskrá hans hljómaði en hann mun hafa starfað nokkuð með Útvarpshljómsveitinni. Kórinn innihélt um tíma að minnsta kosti tólf manns, blandaðan kynjum.

Fáar upptökur munu vera til með kórnum en þó kom a.m.k. eitt lag út á plötu, safnplötunni Síðasta lag fyrir fréttir (1993).

Útvarpskórinn hafði legið í dvala um tveggja ára skeið þegar hann var endurvakinn haustið 1947. Þá var það Róbert A. Ottósson (Robert Abraham) sem varð stjórnandi hans, þetta er Útvarpskórinn hinn síðari en sá var mun öflugri en hinn fyrri og jafnan er talað um þann kór sem hinn eiginlega útvarpskór þrátt fyrir að hann hafi starfað mun skemur.

Við þessi tímamót var ákveðið að allur söngur kórsins yrði tekinn upp og því er mun meira til varðveitt af upptökum hans en hinum fyrri kór. Þannig var unnt að leika upptökur með söng hans áfram í útvarpinu, löngu eftir að kórinn hætti störfum.

Fyrstu tónleikar nýja kórsins voru opinberir tónleikar í Dómkirkjunni í febrúar 1949 en það var í fyrsta og eina skiptið sem kórinn söng utan Útvarpshússins, tónleikarnir voru ekki sendir beint út.

Og nýi Útvarpskórinn var mun stærri en hinn fyrri, en hann innihélt tuttugu og fjórar raddir sem skiptust jafnt milli kynjanna. Meðal þekkts söngfólks í kórnum má nefna Ingibjörgu Þorbergs, Þuríði Pálsdóttur, Magnús Jónsson, Guðrúnu Tómasdóttur, Jón Múla Árnason og Jóhannes Arason en þeir tveir síðast töldu voru mun þekktari fyrir þularraddir sínar fremur en söngraddir.

Útvarpskórinn starfaði fram á haustið 1950 en þá var útséð að Ríkisútvarpið hefði ekki bolmagn til að starfrækja bæði kórinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands sem þá var nýstofnuð og var að hluta til rekin af stofnuninni. Því var kórinn lagður niður og starfaði ekki eftir það.