Útvarpshljómsveitin (1930-58)

Útvarpshljómsveitin leikur undir stjórn Þórarins Guðmundssonar

Hljómsveit kennd við Ríkisútvarpið, starfaði við stofnunina í áratugi eða frá upphafsdögum hennar og allt fram til loka sjötta áratugarins. Sveitin gekk lengst af undir nafninu Útvarpshljómsveitin sem var þó rangnefni þar sem hún var svo fáliðuð framan af. Ríkisútvarpið og Tónlistarfélagið í Reykjavík greiddu laun tónlistarmannanna.

Upphaflega voru tveir hljóðfæraleikarar ráðnir til stofnunarinnar eða um það leyti sem hún tók til starfa 1930, það voru þeir Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari og Emil Thoroddsen píanóleikari en þeir félagar önnuðust allan lifandi hljóðfæraleik í dagskrá útvarpsins, ýmist tveir einir eða sem undirleikarar einsöngvara s.s. Kristjáns Kristjánssonar, Péturs Á. Jónssonar, Eggerts Stefánssonar, Maríu Markan o.fl.

Ýmsum þótti hljóðfæraslátturinn einhæfur með píanói og fiðlu, og til að mæta óskum um fjölbreytileika var þriðja aðila bætt við, og síðan fjórða. Þá fyrst fengu þeir nafn, fyrst Útvarpstríóið, þá Útvarpskvartettinn og síðan Útvarpssextettinn þegar sex hljóðfæraleikarar skipuðu orðið sveitina. Um það leyti var farið að kalla sextettinn Útvarpshljómsveitina sem var auðvitað villandi því áheyrendur útvarpsins stóðu í þeirri meiningu að um væri að ræða mun stærri sveit, því hlaut hún heilmikla gagnrýni fyrir hversu óþéttan og gisinn hljóm hún hefði, og var stundum höfð að skotspæni fyrir vikið.

Reyndar var Útvarpshljómsveitin varla nógu góð fyrri hluta starfstíma hennar, bæði var þar um að ræða hljóðfæraleikara af fyrstu og annarri kynslóð slíkra hérlendis sem höfðu ekki nægilega reynslu af slíkum hljómsveitarleik sem og að hljóðfærakosturinn var langt frá því að vera viðunandi. Úr því var reyndar bætt með því að kaupa hljóðfæri fyrir sveitina erlendis frá, m.a. rándýra Guarnerius fiðlu frá 1728 sem enn er varðveitt hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Útvarpshljómsveitin 1958

Þegar þarna var komið sögu var Þórarinn fiðluleikari orðinn stjórnandi sveitarinnar og 1943 bættist heldur betur í hana þegar fjárframlög fengust fyrir tvo fastráðna fiðluleikara og sjö manns að auki, blásara og strengjaleikara, mest allt landskunna hljóðfæraleikara. Þá taldi Útvarpshljómsveitin þrettán manns og bar fyrst nafn með rentu.

Efnisskrá hljómsveitarinnar var af ýmsu tagi í dagskrá útvarpsins, bæði létt verk og þyngri en dagskrárliður sem bar heitið Íslensk alþýðulög naut hvað mestra vinsælda þótt ekki hafi það beinlínis verið ætlun stjórnenda Ríkisútvarpsins.

Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands var formlega stofnuð 1950 m.a. upp úr Útvarpshljómsveitinni stóð til að sveitin yrði lögð niður, af því varð þó ekki og Útvarpshljómsveitin starfaði áfram sem sjálfstæð eining eða allt til ársins 1958. Í lokin voru meðlimir hennar orðnir tuttugu og sex talsins.

Þórarinn var stjórnandi Útvarpshljómsveitarinnar mestallan tímann sem hún starfaði en fleiri komu við sögu undir lokin, þeirra á meðal Hans Joachim Wunderlich og Hans Antolitsch sem mun hafa stýrt henni síðasta veturinn.

Útvarpshljómsveitin lék reglulega í beinni útsendingu útvarpsins en eftir því sem upptökutækninni fleygði fram voru spilaðar upptökur með sveitinni í dagskrá stöðvarinnar. Einnig var starfandi innan stofnunarinnar önnur hljómsveit sem kölluð var Danshljómsveit útvarpsins og lék undir stjórn Bjarna Böðvarssonar, en hann var einnig í Útvarpshljómsveitinni.

Ekki liggur mikið fyrir af upptökum með sveitinni en leik hennar má þó heyra á fáeinum 78 snúninga plötum s.s. með Einari Kristjánssyni, Gunnari Óskarssyni og Einari Sturlusyni en einnig komu út tvær slíkar plötur með sveitinni 1933, þá undir nafni Útvarpssextettsins.

Efni á plötum