Útvarpið [fjölmiðill] (1926-28)

Auglýsing frá H.f. Útvarp

Áður en Ríkisútvarpið tók til starfa 1930 var einkarekin útvarpsstöð starfrækt á Íslandi til tveggja ára.

Hlutafélagið H.F. útvarp (st. 1925) sem  Ottó B. Arnar símfræðingur var í forsvari fyrir, hafði fengið einkaleyfi til útvarpsreksturs til fimm eða sjö ára (ekki er alveg ljóst hvort var) en hann hafði kynnst tækninni í Bandaríkjunum. H.F. útvarp fékk reyndar ekki einkaleyfi til að selja útvarpstækin sem við átti en það var í raun forsenda þess að reksturinn gæti gengið upp. Fyrir vikið þurfti afnotagjaldið að vera töluvert hærra en fólk hafði almennt tök á og því gekk dæmið að lokum ekki upp.

Útvarpsstöðin gekk líklega dags daglega undir nafninu Útvarpið en hún hafði ekki eiginlegt nafn, ennfremur var nokkuð á reiki hvað kalla skyldi þessa nýju tækni sem þarna var að ryðja sér til rúms. Framan af var hugtakið víðboð mest notað, þá tók víðvarp við en endingin varð útvarp, sem enn í dag er gott og gilt hugtak.

Útvarpið tók til við tilraunaútsendingar í febrúar 1926 og náðust sendingar þess nokkuð út á haf og allt austur í Rangárvallasýslu, á fyrstu dögunum var m.a. tónlistarflutningur þar sem Símon í Hól  (faðir Guðrúnar Á. Símonar) og Árni Jónsson frá Múla (faðir Jóns Múla Árnasonar) sungu sænska glúntasöngva og eitthvað meira, en það var í fyrsta skipti sem sungið var hérlendis í útvarpi.

Útsendingatækin voru staðsett í Loftskeytastöðinni á Melunum en útvarpað var úr Búnaðarfélagshúsinu við Tjörnina (sem í dag hýsir Tjarnarskóla), að Lækjargötu 14b.

Húsnæði Búnaðarfélagsins við Lækjargötu

Það var svo í mars sem Útvarpið tók formlega til starfa og þá voru um tvö hundruð viðtæki í umferð hérlendis. Ekki var um að ræða samfellda dagskrá, um hálftíma dagskrá var á morgnana en lengri á kvöldin. Reyndar var lítið um tónlistarflutning í Útvarpinu, eitthvað var um lifandi flutning en tónlist af grammófónum var með þeim hætti að hljóðnemi var settur við fóninn. Meira var um talað mál, veðurfregnir, erindi og fréttir sem lesnar voru úr Morgunblaðinu.

Útvarpið starfaði fram á árið 1928 en útsendingum var hætt í mars það ár. En þar með var boltinn farinn að rúlla og tveimur árum síðar hóf Ríkisútvarpið starfsemi sína.