Hljómsveit Halldórs frá Kárastöðum (1937-52)

Lítið er vitað um hljómsveit Halldórs Einarssonar frá Kárastöðum í Þingvallasveit en hann var vinsæll harmonikkuleikari og lék víða um sunnan og vestanvert landið á dansleikjum á fyrri hluta 20. aldarinnar, ýmist einn eða í samstarfi við aðra en hann mun hafa gert sveitina út frá Reykjavík þangað sem hann fluttist árið 1937. Ekki er öruggt að hljómsveit hans hafi haft fasta liðsskipan eða meðlimafjölda þann tíma sem hún starfaði.

Elstu heimildir um hljómsveit í hans nafni eru frá 1937 en þá lék hann ásamt félögum sínum á dansleik í Hveragerði og ári síðar á íþrótta- eða ungmennafélagsmóti á Tjaldanesi í Mosfellsdal, einnig er víst að hann lék í nokkur skipti með hljómsveit á Bjarnastöðum á Álftanesi þegar þar voru haldnir dansleikir.

Svo virðist sem hljómsveit Halldórs hafi verið nokkuð virk á árunum 1937 til 40 en svo ber ekkert á henni í heimildum fyrr en 1948 og til 1952, það þarf þó ekki að þýða að hann hafi ekki starfrækt sveit á þeim árum því að dansleikir voru haldnir víða án þess að þeir væru auglýstir í dagblöðum. Á þessu síðara tímaskeiði lék sveitin töluvert á héraðsmótum í Félagsgarði í Kjós og Hlégarði í Mosfellssveit en einnig voru dæmi um að þeir félagar léku á hestamannaballi á Kjalarnesi og jafnvel á Þingvöllum árið en þá léku með honum Hafliði Jónsson (líklega á píanó) og Svavar Halldórsson.

Þeir sem búa yfir frekari upplýsingum um Hljómsveit Halldórs á Kárastöðum mættu gjarnan setja sig í samband við Glatkistuna.