Halldór Haraldsson (1937-)

Halldór Haraldsson

Halldór Haraldsson píanóleikari (f. 1937) er einn virtustu píanóleikara þjóðarinnar. Hann stundaði nám í píanóleik í Reykjavík (lauk burtfararprófi 1960) og London (lauk einleikaraprófi 1965), hefur kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík síðan 1966 og var reyndar um tíma skólastjóri skólans (1992-2003), hann hefur einnig kennt við Listaháskóla Íslands.

Halldór var einn af stofnendum Tríós Reykjavíkur og hefur ennfremur leikið á tónleikum um heim allan, bæði einn og með Sinfóníuhljómsveit Íslands, auk ýmissa hópa og tónlistarmanna.

Árið 1979 kom út platan Tvö píanó en á henni var að finna leik Halldórs og Gísla Magnússonar, önnur plata með sama nafni kom út 1999 þó ekki innihéldi hún sömu verkin að öllu leyti.

Halldór lék einnig ásamt Guðnýju Guðmundsdóttur og Ninu G. Flyer inn á plötuna Íslensk fiðlutónlist árið 1985 og ári síðar kom út plata á vegum Arnar og Örlygs með píanóleik Halldórs, þar var að finna verk úr ýmsum áttum. Hún var hljóðrituð í Hlégarði sumarið 1986 af Halldóri Víkingssyni.

2001 kom út önnur plata þar sem hann lék verk eftir Schubert og Brahms en hún hlaut afar jákvæða gagnrýni í Piano Journal, sem gefið er út af EPTA.
2008 kom síðan úr platan Halldór Haraldsson: Portret, þriggja platna safn með blönduðu efni frá ferli Halldórs og 2012 kom út í tilefni af sjötíu og fimm ára afmælis hans platan Chopin og Liszt en hún hafði að geyma upptökur frá 1986 og 2012, sumar af þeim upptökum höfðu komið út á plötunni sem kom út fyrrnefnda árið. Þessi plata hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Þá kom út árið 2014 platan Píanóhugleiðingar / Piano meditations, sem einnig fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Halldór hefur verið virkur í félagstörfum, t.a.m. í stjórn Félags íslenskra tónlistarmanna, ennfremur formaður félagsins, hann var einn af stofnendum Félags tónlistarkennara og gegndi formennsku þar um tíma, auk þess að stofna Íslandsdeild EPTA (Evrópusambands píanókennara). Hann var um tíma forseti Evrópuráðs EPTA og síðar einn varaformanna þess. Halldór var einn stofnenda Tónlistarbandalags Íslands og gegndi þar formennsku um tveggja ára skeið, var formaður Samtaka tónlistarskólastjóra og hefur að auki starfað í nefndum á vegum menntamálaráðuneytisins. Hann hefur einnig starfað við fjölmiðla í tengslum við tónlist, verið gagnrýnandi, ritað greinar og annast dagskrárgerð í útvarpi.

Halldór hefur ennfremur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín í þágu íslenskrar tónlistar, t.a.m. heiðurverðlaun Félags íslenskra tónlistarmanna og hina íslensku fálkaorðu.

Fyrir jólin 2017 kom út bókin Þá er ástæða til að hlæja: Æviminningar Halldórs Haraldssonar píanóleikara, skráð af Jónasi Sen.

Efni á plötum