Halldór Fannar [2] (1950-96)

Halldór Fannar[2]

Halldór Fannar Ellertsson

Halldór Fannar Ellertsson (f. 1950) vakti snemma athygli fyrir tónlistarhæfileika í heimabyggð sinni fyrir vestan, lék á orgel og var ungur kominn í hljómsveitina Röðla sem spilaði m.a. á héraðsmótum vestanlands. Hann var einnig um tíma í Straumum, Roof tops og Örnum en gerði þar stuttan stans.

Halldór Fannar varð óreglumaður, stundaði sjómennsku og önnur tilfallandi störf en átti erfitt með að halda sig réttu megin laganna, hann sat inni á Litla Hrauni fyrir ýmis brot þegar hann ásamt nokkrum samföngum stofnuðu hljómsveitina Fjötra sem gaf út plötuna Rimlarokk (1982) með aðstoð góðra manna.

Hann var forsprakki sveitarinnar, söng og lék á hljómborð, og samdi megnið af lögunum og textunum á plötunni og hlaut góða dóma fyrir, einkum textana. Hann gaf ennfremur út tvö lög á safnplötunni SATT 1 undir eigin nafni, þar vöktu textar hans athygli og fengu t.d. góða dóma hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins. Líklega var hann um tíma í sveit Rúnars Þórs Péturssonar, 3. hæðinni (1983) en þeir höfðu verið saman í Fjötrum.

Hann hafði einnig góða tilfinningu fyrir lausmálstexta og ritaði nokkrar blaðagreinar sem formaður trúnaðarráðs fanga á Litla Hrauni um fangelsismál og vímuefnavarnir, hann náði þó aldrei að losa sig við óregluna og átti erfitt með að fóta sig í samfélaginu. Halldór Fannar lést 1996.