Halldór Einarsson [1] (1913-81)

Halldór Einarsson frá Kárastöðum

Halldór Einarsson var kunnur harmonikkuleikari hér á árum áður en hann kenndi sig alltaf við Kárastaði í Þingvallasveit þar sem hann var fæddur og uppalinn.

Halldór var fæddur árið 1913 og flutti til Reykjavíkur árið 1937 en þar starfaði hann lengst af sem leigubílstjóri og síðar sem verkstjóri hjá Björgun. Ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um tónlistarmenntun Halldórs en það er líklegt að hann hafi að mestu verið sjálfmenntaður á harmonikkuna. Þó svo að fyrstu heimildir um spilamennsku Halldórs séu frá árinu 1937 þegar hann lék einn síns liðs í félagsheimilinu Borg í Grímsnesi þá er nokkuð öruggt að hann hafði þá leikið um skeið á nikkuna á dansleikjum í heimasýslunni. Hann var heilmikið einn á ferð með hljóðfæri sitt og lék t.a.m. á réttaballi í Valhöll á Þingvöllum haustið 1940 og lék líka á stöðum eins og Ölveri undir Hafnarfjalli, Bjarnastöðum á Álftanesi og víðar en hann var einnig í félagi við aðra og til að mynda lék hann töluvert með Braga Hlíðberg. Einnig liggur fyrir að Halldór starfrækti hljómsveit í eigin nafni a.m.k. á árunum 1937 til 52 en sú sveit lék víða um sunnan- og suðvestanvert landið við miklar vinsældir.

Svo virðist sem Halldór hafi lagt nikkuna á hilluna á sjötta áratugnum, e.t.v. um það leyti sem rokkið var að koma til sögunnar um miðjan áratuginn en harmonikkuleikarar fóru þá mjög halloka undan hljómsveitum sem spruttu fram á sjónarsviðið og gjörbreyttu dansleikjalandslaginu.

Halldór frá Kárastöðum lést haustið 1981 en hann hafði þá átt í veikindum um hríð, hann var þá á sextugasta og níunda aldursári.