Halldór Einarsson [2] (1926-2009)

Halldór Einarsson

Halldór Einarsson básúnuleikari var af annarri kynslóð blásaratónlistarmanna hérlendis og lék lengi með Lúðrasveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Íslands svo dæmi séu nefnd en hann var einnig öflugur liðsmaður í félagsstarfi tónlistarmanna og kom þar víða við.

Halldór var fæddur vorið 1926 og uppalinn á Akranesi, yngstur sautján systkina en fluttist ungur til höfuðborgarinnar og nam básúnuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík en kennarar hans þar voru Albert Klahn og Wilhelm Lanzky Otto. Hann varð fljótlega eftirsóttur básúnuleikari enda voru þeir ekki á hverju strái, og lék hann með Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur og Útvarpshljómsveitinni sem voru eins konar undanfarar fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands sem stofnuð var árið 1950 en með henni lék Halldór til 1955 og svo aftur á áttunda áratugnum. Hann lék um tíma einnig með hljómsveit Þjóðleikhússins og Stórsveit Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH).

Halldór lék með Lúðrasveit Reykjavíkur frá árinu 1945 og allt til ársins 2007 en það mun vera með því allra lengsta sem gerist, ríflega sextíu ár en með sveitinni lék hann inn á plötur hennar auk þess að leika stöku sinnum einleik með sveitinni. Aukinheldur var hann lengi í stjórn lúðrasveitarinnar og þar af formaður sveitarinnar í tólf ár og var að lokum gerður að heiðursfélaga hennar. Þá var hann einnig um tíma í stjórn Sambands íslenskra lúðrasveita og formaður þess um tveggja ára skeið einnig, og einnig virkur í félagsstarfi FÍH.

Þess má og geta að Halldór var ljósmyndari að mennt og rak um árabil ljósmyndastofu og -vinnslu, en hann var þekktur fyrir ljósmyndir sínar af tónlistarmönnum. Hann lést haustið 2009, áttatíu og þriggja ára gamall.