
Umslag fyrstu plötunnar
Tónlistarmaðurinn og útgefandinn Axel Einarsson var maðurinn á bak við plötuseríuna Sönglögin í leikskólanum en alls komu út fjórar plötur í þeirri seríu undir merkjum Stöðvarinnar, útgáfufyrirtækis Axels.
Axel setti sig í samband við Guðrúnu Katrínu Árnadóttur til að vinna fyrstu plötuna sem kom út sumarið 1996, á henni var að finna sígild leikskólalög sungin af krökkum – sum laganna voru í kántríútsetningum en Guðrún Katrín annaðist söngstjórn barnakórs sem söng á plötunni, þessi fyrsta plata kom út á geisladiska- og kassettuformi. Næsta plata kom út haustið 1998, hún var unnin undir svipuðum formerkjum nema að nú var enginn barnakór – hún var endurútgefin árið 2008, á fyrstu tveimur plötunum voru lögin einnig í ósungnum útgáfum. Þriðja platan kom út haustið 2001 og sú fjórða tveimur árum síðar en þær voru báðar seldar til styrktar krabbameinssjúkum börnum. Allar plöturnar munu hafa selst þokkalega.














































