Icecross [1] (1972-73)

icecross1

Icecross

Tríóið Icecross hefur í gegnum tíðina smám saman fengið á sig goðsagnakenndan blæ fyrir það eitt að eina plata sveitarinnar hefur gengið kaupum og sölum milli plötusafnara dýru verði, sveitin náði þó aldrei neinum sérstökum vinsældum þann tíma sem hún starfaði.

Það voru þeir Axel Einarsson söngvari og gítarleikari og Ásgeir Óskarsson trommuleikari sem stofnuðu sveitina snemma árs 1972 og fengu til liðs við sig Ómar Óskarsson sem lék á bassa en Ómar var í grunninn gítarleikari. Sveitin nefndu þeir Icecross en hún var einnig kölluð Ískross eða Íscross af fjölmiðlum hér heima.

Icecross spilaði þungt blúsrokk sem var ekki allra, fyrsta gigg sveitarinnar var í Vestmannaeyjum og til að tryggja sæmilega aðsókn hafði sveitin strippara með sér til öryggis.

Sveitin hafði ekki starfað lengi þegar þeir félagar afréðu að fara til Kaupmannahafnar og reyna fyrir sér þar. Í framhaldinu spiluðu þeir töluvert mikið þar í borg, m.a. á Revolution og í Kristjaníu.

Í Kaupmannahöfn réðust þeir félagar að taka upp plötu og fljótlega eftir áramótin 1972-73 kom hún síðan út en það var átta laga breiðskífa sem bar heiti sveitarinnar, af ókunnum ástæðum stendur „1. LP“ á plötuumslaginu.

icecross-billinn

Icecross bíllinn

Icecross hafði komið heim til Íslands í millitíðinni (í nóvember 1972) og lentu við heimkomuna í einni mestu rassíu sem íslensk hljómsveit hefur lent í fyrr eða síðar. Hljómsveitarbíllinn (Dodge Carryall) sem fylgdi þeim frá Danmörku (hafði reyndar verið keyptur á Íslandi af Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli áður en sveitin fór utan) var nánast skrúfaður í sundur, stykki fyrir stykki, af tollvörðum í leit af fíkniefnum.Verkið tók þrjá daga en ekkert fannst við leitina.

Platan sem gefin var út í þúsund eintökum, hlaut þokkalega dóma í Poppbók Jens Guðmundssonar, Morgunblaðinu og Þjóðviljanum en vakti að öðru leyti ekkert sérstaklega mikla athygli, sveitin fylgdi útgáfunni lítt eftir og um vorið 1973 hættu þeir Ásgeir og Ómar og gengu í skammlífa sveit sem hét Ástarkveðja, en birtust skömmu síðar í annarri mun þekktari, Pelican. Axel sat einn eftir og Icecross var því sjálfhætt. Axel átti þó eftir að nota Icecross-nafnið aftur síðar.

Þótt sögu sveitarinnar væri í raun lokið átti nafn hennar eftir að birtast aftur löngu síðar en í kringum 1990 birtust fréttir í fjölmiðlum þess efnis að sænskur plötusafnari hefði greitt háa upphæð fyrir eintak af plötunni. Um það leyti seldi Axel nokkur eintök af henni sem höfðu dagað uppi hjá honum og upp frá því fór gangverðið á plötunni stigvaxandi.

icecross

Icecross

Einhverjir sáu sér leik á borði til að græða og á Ítalíu kom út bootlegs-útgáfa af plötunni, hún mun hafa verið gefin út í tvö þúsund eintökum. Platan hefur síðan verið gefin út að minnsta kosti níu sinnum í Evrópu af mismunandi aðilum, ýmist á geislaplötu eða á vínyl í ólöglegum útgáfum.

Lögleg endurútgáfa af breiðskífunni kom þó loksins út á vegum Icecross útgáfunnar árið 2013 en þá voru fjörutíu ár liðin frá upphaflegu útgáfunni. Í tilefni af því kom Icecross saman á nýjan leik, reyndar með Sigurð Kristinsson sem trommuleikara.

Þess má að lokum geta að um 1990 vann Axel (sem hafði samið megnið af lögum plötunnar) að nýju efni undir Icecross nafninu, ætlað til útgáfu, af þeirri útgáfu varð aldrei en eitt laganna rataði inn á safnplötuna Lagasafnið 2 sem Axel stóð reyndar sjálfur að undir útgáfumerkjum Stöðvarinnar.

Efni á plötum