Hafliði Hallgrímsson (1941-)

Hafliði Hallgrímsson

Flestir hafa að líkindum heyrt um tónskáldið og sellóleikarann Hafliða Hallgrímsson en færri gera sér líklega grein fyrir hversu stórt nafn hans er í alþjóðlegu samhengi en verk hans hafa verið flutt og gefin út víða um heim. Til marks um það má nefna að hann hefur hlotið Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs auk fjölda annarra viðurkenninga. Segja má að Hafliði sé þrískiptur í listinni, lengi vel var hann þekktur og virtur sellóleikari en tónskáldið í honum tók við af hljóðfæraleiknum og hefur gert hann að þekktu nafni þar, og í þriðja lagi hefur myndlistin blundað í honum og að nokkru leyti tekið við síðustu árin en allir þættirnir þrír hafa fléttast saman þótt með mismiklum hætti sé.

Hafliði Magnús Hallgrímsson fæddist á Akureyri haustið 1941. Hann hneigðist ungur til tónlistar og hafði ætlað sér að læra á fiðlu en hrein tilviljun réði því að sellóið varð fyrir valinu þegar hann var 13 ára gamall, tónlistarskólinn á Akureyri hafði þá nýverið fest kaup á slíku hljóðfæri og þegar honum bauðst að læra á það hjá norskum tónlistarkennara í bænum varð ekki aftur snúið. Um tveimur árum síðar fór hann suður til Reykjavíkur þar sem hann lauk gagnfræðaprófi og nam þá hjá Einari Vigfússyni sellóleikara áður en hann innritaðist í Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan burtfararprófi. Á námsárunum í Reykjavík hóf hann að koma fram opinberlega sem sellóleikari og lék þá einnig með Sinfóníuhljómsveit Íslands aðeins um tvítugt en sú sveit var þá aðeins tíu ára gömul. Veturinn 1962-63 fór Hafliði suður til Rómar í framhaldsnám og það mun hafa verið þar sem hann ákvað að gerast tónskáld síðar á ævinni en hann hafði þá eitthvað byrjað að semja tónlist á uppvaxtarárum sínum á Akureyri.

Hafliði kom aftur heim til Íslands eftir veturdvöl á Ítalíu og starfaði með Sinfóníuhljómsveit Íslands um veturinn á eftir en kom einnig nokkuð fram á tónleikum með öðrum, s.s. á tónleikum Musica Nova sem þá var að hefja sína starfsemi en einnig starfaði hann með svokallaðri æskulýðshljómsveit Norðurlanda sem var skipuð ungu og efnilegu tónlistarfólki af Norðurlöndunum. Það var svo haustið 1964 sem hann fór til Bretlands og hóf nám við Royal acedemic of music í London þar sem hann síðan lauk námi í sellóleik og hélt sína fyrstu einleikstónleika í London 1971, hann þótti mikið efni og á námsárunum hreppti hann hin virtu Madame Suggia tónlistarverðlaun.

Á Lundúnaárum sínum aflaði hann sér mikillar reynslu sem sellóleikari rúmlega næstan áratuginn, hann lék mikið á tónleikum með ýmsum tónlistarhópum s.s. The London chamber orchestra, kammersveit Daniel Baremboims og Menuhin festival Orchestra (kennd við fiðluleikarann Yehudin Menuhin) en með þeim sveitum ferðaðist hann víða um heim við tónleikahald. Þótt hann væri fyrst og fremst sellóleikari á þessum árum var hann einnig að semja nokkuð og árið 1975 vann hann til verðlauna í hinni ítölsku Viotti tónsmíðakeppni með verkið Verse I (fyrir flautu og selló) og varð það honum hvati til frekari verka á því sviði.

Hafliði á yngri árum

Hafliði kom reglulega heim til Íslands og hafði fyrir reglu að heimsækja heimalandið einu sinni eða tvisvar á ári. Í þeim ferðum hélt hann iðulega tónleika, bæði sjálfstæða og kom einnig fram sem einleikari t.d. með Sinfóníuhljómsveit Íslands en starfaði þá einnig með kammersveitum eins og Haydn string trio og Icelandic Canadian ensemble (ICE) svo dæmi séu nefnd, þá lék hann oftsinnis í útvarpssal og notaði tækifæri þegar færi gafst til að fara norður til æskustöðvanna á Akureyri þar sem hann hafði haldið sína fyrstu sjálfstæðu tónleika á Íslandi haustið 1967. Hann reyndi að hafa það fyrir reglu á Íslandsferðum sínum að frumflytja eigin verk en hann var þá jafnframt farinn  að fást við að útsetja gömul íslensk þjóðlög en margar slíkar útsetningar er að heyra á útgefnum plötum. Haflði var á þessum árum nokkuð farinn að fást við myndlist samhliða tónlistinni og þótti liðtækur teiknari og málari, hann hélt sína fyrstu málverkasýningu hér á landi en hann hefur haldið nokkrar slíkar sýningar bæði hérlendis og erlendis.

Haustið 1976 urðu tímamót í lífi Hafliða, hann hafði þá hugsað sér að flytjast aftur heim til Íslands enda var hann kominn með fjölskyldu og þótti London ekki vænlegur staður til að ala upp börn, fjölskyldan fór þó aldrei alla leið til Íslands heldur til Edinborgar í Skotlandi þar sem hann var fastráðinn við Scottish chamber orchestra sem fyrsti sellóleikari en á Lundúnaárunum hafði hann mestmegnis starfað sem lausamaður í tónlistinni. Með skosku kammersveitinni fór hann áfram víða um lönd til tónleikahalds og reyndar einnig í Skotlandi en sveitin var um árabil fastur liður á dagskrá Edinborgarhátíðarinnar og annarra tónlistarhátíða, sveitin lék jafnframt inn á fjölda platna og stjórnaði Hafliði henni stundum jafnvel sjálfur – þegar mest var að gera hjá sveitinni lék hún um hundrað og tuttugu sinnum á ári.

Hafliði hélt þó áfram að koma heim til Íslands eins oft og tækifæri gáfust enda hélt hann sterkt í ræturnar þótt hann byggi erlendis. Hann kom oft fram ásamt öðru tónlistarfólki eins og píanóleikurunum Halldóri Haraldssyni og Guðnýju Guðmundsdóttur, og hann hélt áfram að leggja áherslu á frumflutning eigin verka í slíkum Íslandsheimsóknum en auk þess flutti hann sem sellóleikari verk annarra og sem einleikari t.d. með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Verk hans voru t.a.m. frumflutt á Listahátíð í Reykjavík, Skálholtshátíð og víða en einnig á tónlistahátíðum erlendis s.s. í Stirling í Skotlandi.

Árið 1982 urðu önnur tímamót á ferli Hafliða þegar hann sagði upp stöðu sinni hjá Scottish chamber orchestra til að helga sig tónsmíðum og í kjölfarið hófst nýr kafli hjá honum sem kalla mætti tónsmíðaskeiðið. Hann var þá þegar orðinn virt tónskáld en nú hóf hann að semja í auknum mæli eftir pöntunum, þannig samdi hann töluvert fyrir Hörð Áskelsson og kóra hans en einnig fyrir hljómsveitir t.d. í Skotlandi og Póllandi. Hann var þó ekki alveg hættur að spila, hann stofnaði t.d. Mondrian tríóið í Skotlandi og lék með því um árabil en starfaði einnig með New music of Scotland, London festival orchestra og fleiri kammersveitum víða um heim auk þess að taka að sér ýmis önnur aukaverkefni samhliða tónsmíðum s.s. sem gestastjórnandi Íslensku hljómsveitarinnar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands (á eigin verkum), auk kennslu ýmis konar.

Hafliði í kringum 1980

Eftir að Hafliði hóf að einbeita sér að mestu að tónsmíðum lét árangurinn ekki á sér standa og árið 1984 vann hann til verðlauna í pólskri tónskáldakeppni sem kennd er við Henryk Wieniavsky – fyrir verkið Poemi (fyrir fiðlu og strengjasveit) en það hafði verið pantað af Scottish chamber orchestra. Stærsta viðurkenningin var þó árið 1986 þegar honum hlotnuðust tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir sama verk, aðeins annar Íslendinga til að hljóta þau þá (á eftir Atla Heimi Sveinssyni), síðar sama ár fékk hann einnig menningarverðlaun DV fyrir verkið auk útsetninga hans á íslenskum þjóðlögum.

Poemi kom út á plötu árið 1989 ásamt fleiri hljómsveitarverkum en hún bar titilinn Fjögur íslensk hljómsveitarverk / Four Icelandic Orchestra Work: Works by Jón Nordal, Leifur Þórarinsson, Magnús Bl. Jóhannsson, Hafliði Hallgrímsson og kom út í nafni Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem lék undir stjórn Petri Sakari. Þetta sama lykilverk Hafliða kom svo út ári síðar með The Norwegian chamber orchestra. Í kjölfarið hófu verk hans að koma út í auknum mæli á alþjóðlegum vettvangi, árið 1990 kom einnig út plata á vegum Merlin records sem bar heitið Hafliði Hallgrímsson: Daydreams inn umbers, Tristia, Strönd, Verse I, Jacobs ladder en á henni lék Scottish chamber orchestra ásamt einleikurum undir stjórn hans, og árið 1995 kom út plata með Kreutzer Quartet – Hafliði Hallgrímsson: Offerto for solo violin, Solitaire for solo cello, Four movements for string quartet, String quartet no. 1., sem var tvöfalt albúm. Á plötuumslaginu var að finna málverk eftir Hafliða en slíkar myndir er að finna á nokkrum þeirra platna sem komið hafa út með tónlist hans – á þessum árum hafði hann þó lagt myndlistina nokkuð til hliðar í bili.

Tíundi áratugurinn var með svipuðum hætti hvað tónsmíðar Hafliða áhrærir, þeim fór fjölgandi enda hafði hann smám saman lagt spilamennskuna til hliðar sem fyrr segir til að sinna tónskáldahlutverkinu og þar var fjölbreytninni fyrir að fara, kórverk, söngverk, kammerverk, píanóverk o.s.frv. Áfram lagði hann áherslu á að frumflytja verk sín hér á landi, þannig var Triptych frumflutt á Skálholtshátíð 1990 sem var helguð nafni hans, og árið 1991 efndi Listahátíð í Reykjavík til tónleika þar sem sex verk hans voru flutt en listahátíð fagnaði þá 50 ára afmæli – þar kom Hafliði einnig fram sjálfur ásamt Pétri Jónassyni gítarleikara en þeir áttu langt og farsælt samstarf. Skálholtshátíð var aftur helguð verkum hans 1993 og var þar talað um Hafliðahelgi og á sama tíma var einnig haldin sýning á grafíkmyndum eftir hann en hann var þá að byrja að vinna að myndlistinni aftur. Þó hann hefði minnkað við sig spilamennskuna kom hann við sögu á plötunni Þrír konsertar sem kom út 1993 en sú plata hafði að geyma tónlist eftir Þorkel Sigurbjörnsson, verkið sem Hafliði kom við sögu í hafði Þorkell samið fyrir hann. Nafn Hafliða var því þarna orðið vel þekkt hér heima þrátt fyrir að hann hefði lítið starfað á Íslandi, og tónlistarhátíðir og tónleikar voru víða haldnir um land þar sem nafni hans var haldið á lofti, Hafliðadagar voru haldnir á Akureyri á vegum Tónlistarfélags Akureyrar og Tónlistarskólans á Akureyri um páskana 1990, tónleikar voru tileinkaðir honum í tónleikaröðinni Sumarkvöld við orgelið árið 1994, Helga Bryndís Magnúsdóttir flutti öll píanóverk hans á tónleikum í Iðnó á Óháðu listahátíðinni 1995, Caput-hópurinn flutti verkið Örsögur á tónleikum 1999 og árið 2001 var tónverkið Passía op. 28 frumflutt í Hallgrímskirkju af hljómsveit, kór og einsöngvurum, svo nokkur dæmi séu nefnd en einnig kom Hafliði að flutningi verka sinna sem stjórnandi m.a. Kammersveitar Reykjavíkur, Hljómeykis o.fl.

Á nýrri öld héldu verk Hafliða áfram að koma út á plötum, árið 2002 kom út plata með fiðluleikaranum Guðnýju Guðmundsdóttur þar sem hún lék m.a. nokkur fiðluverk eftir hann, Ritað í sand, Línur án orða, Flug timans og Allt að því sálmur en á plötunni sem bar titilinn Einleiksverk fyrir fiðlu var einnig að finna verk eftir Þórarin Jónsson, J.S. Bach og Hallgrím Helgason. Ári síðar kom Passía út á vegum finnsku Ondine-útgáfunnar í flutningi Mótettukórsins og Kammersveitar Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar en um einsönginn í verkinu sáu Garðar Thor Cortes og Mary Nessinger. Verkið hafði verið frumflutt í Hallgrímskirkju sem fyrr er greint en það hafði verið pantað af Listvinafélagi Hallgrímskirkju í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi og var fyrsta verk sinnar tegundar eftir Hafliða. Platan var tilnefnd í flokknum plata ársins í flokki sígildrar og nútímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum og fékk góða dóma í Morgunblaðinu og reyndar víða um heim en hún kom út á alþjóðamarkaði.

Hafliði Hallgrímsson

Hafliði var afar afkastamikill á þessum tíma og árið 2003 samdi hann sína fyrstu óperu, Die Wält de Zwischenfälle eða Viröld fláa eins og það var þýtt á íslensku, en óperan var frumflutt í Þýskalandi. Hún var byggð á sögum rússneska skáldsins Daniils Kharm en verkið Örsögur (Mini stores) sem hafði verið frumflutt af Caput hópnum 1999 var einnig byggt á þeim en þær hafa einnig farið víða á svið. Tónleikauppfærsla af óperunni var svo sett upp á Listahátíð í Reykjavík árið 2007 en um það leyti var Hafliði kjörinn staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands til þriggja ára. Og fleiri verk litu dagsins ljós á þessum árum, sellókonsert op. 30 var frumfluttur um haustið 2003 af Sinfóníuhljómsveit Íslands og norska sellóleikaranum Truls Mørk, La Serenissima (fyrir klarinettu og kammersveit) var frumflutt 2007, Norðurdjúp voru frumflutt 2010 og Hymnos sama ár þegar menningarhúsið Hof var vígt á Akureyri og þannig mætti áfram telja, Hafliði var hvergi nærri hættur þrátt fyrir að vera kominn að sjötugu.

Á fyrsta áratug nýrrar aldar komu fjölmargar plötur út með tónlist Hafliða, áður eru nefndar plata Guðnýjar Guðmundsdóttur og Passía en árið 2004 sendi Kammersveit Reykjavíkur undir stjórn Bernharðs Wilkinson frá sér plötuna Hafliði Hallgrímsson: Herma, Ombra, Ríma, sem hafði að geyma samnefnd kammerverk eftir Hafliða, þess má geta að Ríma (fyrir sópran og strengjasveit) var samin fyrir vetrarólympíuleikana í Lillehemmar 1994 – platan hlaut góða dóma í Morgunblaðinu. Árið 2006 kom út plata þar sem Einar Kristján Einarsson gítarleikari lék m.a. verk Hafliða á plötunni Finisterre og 2007 kom svo út plata með Þórunni Ósk Marinósdóttur lágfiðluleikara og Steinunni Birnu Ragnarsdóttur píanóleikara sem bar heitið Hafliði Hallgrímsson: Dagbókarbrot / Benjamin Britten: Lachrymae, og ári síðar kom út plata með píanóleikaranum Simon Smith – Hafliði Hallgrímsson: Music for solo piano, með öllum píanóverkum Hafliða. 2008 kom út plata með Fidelio trio & Matthew Jones lágfiðluleikara undir yfirskriftinni Hafliði Hallgrímsson: Metamorphoses (Chamber music) og árið 2009 komu Örsögur út með Caput-hópnum en upptökurnar höfðu verið gerðar 2003. Þegar verkið hafði verið flutt hér heima á sínum tíma höfðu Jóhann Sigurðarson leikari og tónskáldið sjálft verið í hlutverki sögumanns en á plötunni var það í höndum breska leikarans Simon Callow. Platan fékk góða dóma í Morgunblaðinu. Þetta sama ár (2009) kom svo út platan Truls Mørk plays Hallgrímsson: Cello conserto / Herma með Scottish chamber orchestra undir stjórn John Storgård. Og útgáfum á verkum Hafliða Hallgrímssonar var hvergi nærri lokið því árið 2011 kom út plata með fiðluleikaranum Sølve Sigerland – Written in sand: Ruders, Salonen, Hallgrímsson, 2013 kom út platan Hafliði Hallgrímsson: Choral works með Schola Cantorum sem var enn eitt dæmið um samstarf Hafliða og Harðar Áskelssonar kórstjórnanda, og loks árið 2021 kom út plata með fiðluleikaranum Peter Sheppars Skærved – Hafliði Hallgrímsson: Offerto, works for solo violon. Víst er að útgáfum með verkum Hafliða er hvergi nærri lokið og ótalin eru öll smærri verk sem finna má víðs vegar á plötum innlendra og erlendra flytjenda auk safnútgáfa af ýmsu tagi, hér má nefna plötur s.s. með Birni Steinari Sólbergssyni orgelleikara, Kór Flensborgarskóla, Hamrahlíðarkórnum, Helgu Ingólfsdóttur, Skólakór Garðabæjar, Þorkeli Sigurbjörnssyni, Pétri Jónassyni, Sæunni Þorsteinsdóttur og fleirum. Þá má geta þess að leik Hafliða má jafnframt heyra á ýmsum innlendum og erlendum plötum sem ekki verða tíundaðar hér en þó má nefna að hann hefur einnig lítillega komið við sögu á plötum með „léttari“ tónlist s.s. með Denny Laine og Pink Floyd – þótt hann hafi lítið vilja flíka því enda á allt annarri línu sjálfur

Hafliði Hallgrímsson er afar afkastamikið tónskáld og eftir hann liggur ógrynni tónverka af öllum stærðum og gerðum, kammerverk hafa verið hvað mest áberandi á tónskáldaferli hans og hér hefur aðeins verið stiklað á stóru um helstu verk hans. Á síðustu árum má segja að hann hafi nokkuð hægt á sér hvað afköst varðar en árið 2017 var enn verið að frumflytja tónlist eftir hann, þá voru í Hörpu fluttir Fimm söngvar fyrir sópran og hljómsveit, og árið 2019 var það óratorían Mysteríum op. 53 sem m.a.s. hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Og enn flytja tónlistarhópar reglulega verk eftir hann á tónleikum þar sem hann er heiðraður með ýmsum hætti.

Á seinni árum hefur Hafliði aftur snúið sér í auknum mæli að myndlistinni og haldið myndlistasýningar hér á landi og á Bretlandseyjum þar sem hann býr enn en hann hefur ekki búið hér á landi síðan um miðjan sjöunda áratuginn þrátt fyrir að hafa ætlað sér það um árabil, þær eru þó ófáar ferðirnar sem hann hefur komið til Íslands með frumflutta tónlist í farteskinu, stjórnað hljómsveitum, leikið á tónleikum, haldið sýningar á myndlist sinni, samið tónlist og sinnt hér kennslu í tónlist samhliða öðrum verkefnum.

Hafliði Hallgrímsson sellóleikari, tónskáld og myndlistamaður hefur hlotið ótal viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistarinnar, þar ber líklega hæst Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs sem fyrr segir en þess ber einnig að geta að hann hefur hlotið hina íslensku fálkaorðu fyrir ævistarf sitt.

Efni á plötum