Helgi Eyjólfsson (1925-2008)

Helgi Eyjólfsson

Helgi Eyjólfsson var vel þekktur harmonikkuleikari sem bjó og starfaði mest alla sína tíð á Borgarfirði eystri og nágrenni.

Helgi fæddist árið 1925 að Bjargi í Borgarfirði eystri og komst í tæri við tónlistargyðjuna strax á unga aldri en hann var að mestu sjálfmenntaður í tónlist, hans aðal hljóðfæri var harmonikkan en hann hafði þó hlotið einhverja leiðsögn í orgelleik á Vopnafirði á unglingsárum sínum, reyndar mun Helgi hafa leikið á flest hljóðfæri og í minningargrein um hann segir sonur hans muna eftir föður sínum spilandi á jólaballi í Bakkagerði (Borgarfirði eystri) þar sem hann lék á trompet með hægri hendi, lék harmonikkubassann með þeirri vinstri og sló taktinn á hi-hat ið með fætinum á sama tíma.

Helgi hóf að leika á dansleikjum eystra, fyrst á orgel en síðan á harmonikku þegar um eða fyrir fermingu og lék í upphafi aðallega í næsta nágrenni við Bakkagerði en síðar fór hann „yfir fjallið“ og var þá oft um langa leið að fara – það þótti þó ekkert tiltökumál að ganga í fimm eða sex tíma til að leika á slíku balli, og oft voru launin lítið meira en brennivínsflaska. Á yngri árum sínum á sjötta áratugnum var Helgi um tíma organisti við Bakkagerðiskirkju og stjórnaði m.a.s. kór þar þegar haldið var upp á 50 ára afmæli hennar haustið 1952.

Helgi hætti að mestu spilamennsku þegar hann stofnaði til fjölskyldu og mun lítið sem ekkert hafa sinnt tónlistinni í áratugi eða allt þar til harmonikkuvakning varð um allt land í kringum 1980 og fjöldinn allur af harmonikkufélögum voru stofnuð, þar á meðal Harmoníkufélag Héraðsbúa árið 1984. Hann tók þátt í þeirri vakningu og varð strax virkur þátttakandi í þeirri starfsemi, og tók þátt í ýmsum viðburðum þar sem harmonikkuleikur hans kom við sögu en hann var þekktur sem slíkur víða um sveitir. Hann starfaði þá einnig með Tríói Valgeir á Egilsstöðum, lék undir á sýningu Leikfélags Seyðisfjarðar á Síldin kemur, síldin fer, starfaði með þjóðdansahópnum Fiðrildunum á Egilsstöðum og fór með þeim m.a. til Rússlands, Færeyja og Þýskalands, og lék oftsinnis einn á opinberum vettvangi svo dæmi séu nefnd. Þá kom hann einnig fram utan þess sem myndi flokkast sem vettvangur harmonikkuunnenda, kom t.d. fram með hljómsveitinni Austurland að Glettingi, var virkur í starfi herstöðvaandstæðinga og lék þá undir söng og stjórnaði fjöldasöng reyndar einnig, og þannig mætti áfram telja.

Helgi samdi nokkuð af lögum og textum, vann t.d. til verðlauna í lagakeppni innan Harmoníkufélags Héraðsbúa og komu fáein lög eftir hann út á plötum, harmonikkuleik hans má svo heyra á safnplötunni Fjörðurinn okkar en sú plata hefur að geyma tónlist sem tengist Borgarfirði eystri. Hann hafði flutt til Seyðisfjarðar árið 1996 og lést þar sumarið 2008 á áttugasta og þriðja aldursári en hann hafði þá átt í veikindum um nokkurt skeið