Afmælisbörn 3. júlí 2021

Lýður Ægisson

Í dag eru tvö tónlistartengd afmælisbörn á skrá hjá Glatkistunni:

Tónlistarmaðurinn Lýður Ægisson hefði átt afmæli á þessum degi en hann lést 2019. Lýður (f. 1948), sem var bróðir Gylfa Ægissonar tónlistarmanns og faðir Þorsteins Lýðssonar sem einnig hefur gefið út efni, sendi frá sér nokkrar sólóplötur á sínum tíma, þá fyrstu 1985. Lýður starfaði á þeim tíma sem skipstjóri frá Vestmannaeyjum og samdi þjóðhátíðarlag Vestmannaeyinga það ár. Hann var fyrst og fremst laga- og textahöfundur en kom einnig við sögu sem söngvari á plötum sínum.

Stokkseyringurinn Pálmar Þórarinn Eyjólfsson (f. 1921) hefði einnig átt afmæli þennan dag en hann var organisti og kórstjóri víða um Árnessýslu. Pálmar, sem vann mest alla ævi verkamannastörf í frystihúsum hlaut ekki hefðbundna tónlistarmenntun en nam hjá frænda sínum á orgel, hann var því að mestu sjálfmenntaður. Pálmar var einnig tónskáld og 1993 kom út platan Sólnætur en hún hafði að geyma sönglög eftir hann. Hann lést 2010.

Vissir þú að hljómsveitin Timburmenn lék eitt sinn á bindindismóti í Galtalæk um verslunarmannahelgina?