Hjálmar Eyjólfsson (1911-90)

Hjálmar Eyjólfsson

Hjálmar Eyjólfsson, kenndur við Brúsastaði í Hafnarfirði var kunnur harmonikkuleikari en hann lék á dansleikjum og öðrum skemmtunum um árabil, mestmegnis á heimaslóðum í Hafnarfirði en einnig víðar á landsbyggðinni.

Hjálmar var fæddur sumarið 1911 og bjó líkast til mest alla ævi sína í Firðinum þaðan sem hann stundaði sjómennsku, starfaði við skipasmíðar og eitthvað meira, hann var einnig um tíma á síld og mun hafa leikið fyrir dansi t.d. bæði á Siglufirði og í Hrísey. Hann lék þó sem fyrr segir mest í Hafnarfirði, m.a. í Góðtemplarahúsinu og einnig í gamla barnaskólanum þar sem oft voru haldin böll, ýmist einn eða með öðrum harmonikkuleikurum – oftast nær Guðna Sigurbjarnarsyni en einnig fór hann og lék fyrir dansi bæði á Akranesi og uppi í Hvalfirði, og sjálfsagt víðar. Hann mun hafa verið einn af stofnfélögum Félags harmonikuleikara í Reykjavík (Harmonikufélags Reykjavíkur) hinu fyrra sem starfaði á árunum 1936 til 48.

Hjálmar lést á nýársdag árið 1990 en hann var þá kominn fast að áttræðu.