Hljómsveit Einars Loga (1959-66)

Hljómsveit Einars Loga / Hi gees

Um nokkurra ára skeið á sjöunda áratug síðustu aldar starfaði hljómsveit að nafni Hljómsveit Einars Loga en sú sveit lék víða á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, og var reyndar á tímabili fastagestur í hinum ýmsu klúbbum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Fyrstu heimildir um hljómsveit Einars Loga eru frá því í mars árið 1959 en það er áður en hin eiginlega hljómsveit hans tók til starfa, það er því eðlilegt að álykta sem svo að það sé einhvers konar forveri sveitarinnar og hafi verið skipuð öðrum mannskap – engar aðrar upplýsingar finnast reyndar um þá sveit.

Hljómsveit Einars Loga var stofnuð haustið 1960 og líkast til skipuðu sveitina frá upphafi þeir Einar Logi Einarsson píanóleikari og hljómsveitarstjóri, Bragi Einarsson saxófón- og klarinettuleikari, Friðrik Theódórsson bassaleikari, Björn H. Björnsson saxófónleikari og Hreiðar Guðjónsson trommuleikari, söngkonan Svanhildur Jakobsdóttir bættist svo fljótlega í hópinn en einnig söng Friðrik bassaleikari. Sumarið 1961 leysti ný söngkona Svanhildi af hólmi en það var Anna Kristjánsdóttir (dóttir Kristjáns Kristjánssonar KK og systir Pétur W. Kristjánssonar), hún söng með sveitinni í nokkra mánuði en einnig var Eiríkur Hannesson söngvari hennar um eins árs skeið. Næst tók við Astrid Jensdóttir og svo Helga Sigþórsdóttir en fleiri söngkonur virðast einnig hafa komið við sögu sveitarinnar, þannig sungu til dæmis bæði Hjördís Geirsdóttir og Sigrún Jónsdóttir með henni um tíma og einnig hafa Hrafn Pálsson og Þór Nielsen verið nefndir í því samhengi.

Hi gees / Hljómsveit Einars Loga

Hljómsveitin sjálf virðist að mestu hafa verið skipuð sömu meðlimum framan af en árið 1963 hafði Páll Einarsson tekið við Friðriki á bassanum. Síðar munu Björn R. Einarsson básúnuleikari, Árni Elfar og Guðmar Marelsson trommuleikari hafa leikið einnig með henni en svo virðist sem sveitin hafi einnig stundum verið aðeins tríó.

Hljómsveit Einars Loga lék víða á höfuðborgarsvæðinu en einnig í nágrannabyggðalögum eins og í Borgarnesi og Akranesi, þá lék hún eitthvað í skíðaskálanum í Hveradölum en var e.t.v. þekktust fyrir að leika mikið uppi á Keflavíkurflugi í hinum ýmsu klúbbum varnarliðsins s.s. í NCO klúbbnum og Officer‘s club. Þegar sveitin lék uppi á Velli gekk hún undir nafninu Hi gees (Hi-gees) og var töluvert þekkt og vinsæl þar.

Svo virðist sem Hljómsveit Einars Loga / Hi gees hafi starfað til ársins 1966 en hætt þá störfum.