Friðrik Theodórsson (1937-2014)

Friðrik Theodórsson

Friðrik Theodórsson stóð í framlínu djassmenningu Íslendinga um árabil og hélt að nokkru leyti utan um djasstónlistarlíf hérlendis með skeleggri framgöngu sinni en hann var einnig hljóðfæraleikari og söngvari.

Friðrik var fæddur í Reykjavík 1937, lauk verslunarprófi og starfaði víða á ferli sínum s.s. hjá Sambandinu en lengst af þó hjá heildverslun Rolf Johansen. Hann lék með fjölmörgum hljómsveitum um ævi sína, fyrst um sinn á bassa með sveitum eins og Hljómsveit Einars Loga Einarssonar (Hi Gees) á Keflavíkurflugvelli, Nóva tríóinu, Hljómsveit Þorsteins Eiríkssonar  og fleiri sveitum en hann söng jafnframt með flestum þessara sveita. Síðar, þegar djassinn hafði tekið yfirhöndina tók básúnan við (og jafnvel fleiri brasshljóðfæri) að mestu og þá lék hann með ýmsum nafntoguðum sveitum s.s. Trad kompaníinu, Tríói Kristjáns Magnússonar, Big band ´81, Dixielandhljómsveit Árna Ísleifssonar, Sálarháska, Sveiflusextettnum og Friðrik XII. Á eldri árum sínum lék Friðrik svo með Lúðrasveit Reykjavíkur og stórsveit FÍH – Öðlingunum, og reyndar allt fram í andlátið.

Friðrik var kunnur fyrir sönghæfileika sína og brá stundum fyrir sér svokölluðum „scat“ söngstíl sem vakti iðulega mikla athygli. Söng hans má heyra á nokkrum útgefnum plötum og meðal þeirra má hér nefna plötur með Grétari Sigurbergssyni, Hjördísi Geirsdóttur og Árna Ísleifssyni.

Friðrik er þó líklega kunnari fyrir að standa í framlínu íslensks djasstónlistarlífs um árabil. Hann var fjölmörg ár í stjórn RÚREK og Jazzhátíðar Reykjavíkur og einnig sem framkvæmdastjóri hátíðarinnar, og var reyndar heiðraður fyrir það fyrstur allra. Þá starfaði hann fyrir FÍH (Félag íslenskra hljómlistarmanna) að djassmálum, var lengi í stjórn djassdeildarinnar þar sem og formaður Öðlinga FÍH, hann var einnig í framkvæmdastjórn Jazzvakningar og þannig mætti sjálfsagt áfram telja en hann þótti drífandi stjórnandi og reyndar var hann oftsinnis í hlutverki kynnis á djasshátíðum og -tónleikum. Hann hélt úti vefriti um djasstónlist á síðustu árum sínum en hafði starfað við dagskrárgerð í útvarpi fyrir margt löngu – m.a. annast djasstónlistarþætti.

Friðrik lést vorið 2014, sjötíu og sjö ára gamall.